Skip to main content

Könnun á stafrænni hæfni einstaklinga á vinnumarkaði, stjórnenda og stöðu fyrirtækja í stafrænni umbreytingu  

Höfundar: Eva Karen Þórðardóttir, Ólafur Andri Ragnarsson og Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir.  

Ágúst 2022   

Inngangur   

Á undanförnum áratugum hafa orðið stórkostlegar framfarir í tölvu- og hugbúnaðariðnaði. Frá því að fyrstu tölvurnar komu fram um miðja síðustu öld, hafa afköst þeirra margfaldast. Samhliða því hafa tölvur sífellt farið minnkandi að umfangi og nú eru örgjörvar svo smáir að þeir eru hluti af tólum og tækjum sem við notum daglega. Einnig hefur hugbúnaður tekið yfir mörg af þeim verkefnum sem við vinnum. Forsenda þess er að gögn, samskipti og samhæfing séu stafræn. Við upplifum nú á þriðja áratug aldarinnar, tímabil umbreytingar yfir í stafrænan heim.   

Á fyrsta áratug aldarinnar varð umbreyting á miðlum eins og tónlist, myndum og kvikmyndum. Einnig miðlum eins og dagblöðum og síðar samskiptum eins og síma og útvarps. Allt varð þetta stafrænt. Geisladiskurinn hvarf og nú streymum við tónlist og horfum á kvikmyndir á netinu.  

Þessi bylgja heldur áfram fram í miðjan annan áratug aldarinnar og breytir því hvernig fyrirtæki vinna með gögn og hvernig samskiptum er háttað. Rótgróin fyrirtæki, sem þróað hafa verkferla og samskiptaaðferðir fyrir starfsemina, hafa nú tækifæri til að sjálfvirknivæða með stafrænum lausnum og ná fram meiri framlegð og lækka kostnað.   

Sem dæmi, í stað símtala, umsóknareyðublaða á pappír eða tölvupósta er hægt að breyta verkferlum með því að útbúa app eða vef fyrir slík samskipti. Í stað þess að hringja í hárskerann má nota app til að panta tíma. Í stað þess að fylla handvirkt út umsóknareyðublað er það gert á  vefformi. Í stað þess að hringja í viðskiptavin til að láta vita að pöntun er tilbúin til afhendingar, má senda sjálfkrafa tilkynningu í tölvupósti eða smáskilaboð í símann. Þetta eru kannski ekki stór atriði en saman geta   þau stuðlað að góðri framleiðniaukningu og starfsfólk getur þá sinnt meira krefjandi verkefnum.   

Stjórnendur fyrirtækja og starfsfólk standa því frammi fyrir áskorunum sem kalla á margar spurningar. Eigum við að breyta starfsemi fyrirtækisins og taka upp stafrænar lausnir eða höldum við bara áfram eins og áður? Hverjar eru þessar stafrænu lausnir? Hvað er hægt að gera? Verða breytingar á starfsmannahaldi? Hvað kostar þetta? Hvar á eiginlega að byrja?   

Stafræni hæfniklasinn var stofnaður árið 2021 af Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ), VR stéttarfélagi og Háskólanum í Reykjavík. Þarna koma því saman aðilar vinnumarkaðarins ásamt menntastofnun til að skoða betur í hverju stafræn umbreyting felst. Markmiðið er að safna saman efni og upplýsingum um hvað stafræn umbreyting er og hvernig á að hefja innleiðingu hennar. Hagsmunir SVÞ felast í að sjá hvernig stafræn tækni getur hagrætt og aukið framleiðni fyrirtækja og hagsmunir VR felast í því að aðstoða sitt félagsfólk til að mæta breyttum hæfnikröfum.    

Eitt af fyrstu verkefnum klasans var að gera rannsókn um stöðu stafrænnar innleiðingar á Íslandi. Þátttakendur voru bæði stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar á vinnumarkaði. Leitað var til Prósents, þekkingarfyrirtækis á sviði markaðsrannsókna, til að framkvæma könnunina. Þessi skýrsla er lýsing á niðurstöðum þessarar könnunar sem framkvæmd var í nóvember og desember 2021. 

Stafræn umbreyting   

Stafræn umbreyting felst í því að breyta verkferlum og viðskiptamódeli hjá hefðbundnu fyrirtæki þannig að það sé stafrænt. Slíkt gæti verið til dæmis að taka í notkun hugbúnað sem auðveldar starfsfólki vinnuna. Hugtakið felst einnig í að sjálfvirknivæða verkferla og spara starfsfólki þannig ákveðin verk. Í stað þess að taka pantanir í síma gæti viðskiptavinur bókað á netinu. Verkferlar verða þannig stafrænir og hugbúnaður og öpp notuð við störf. Í raun er verið að fara frá tækni þriðju iðnbyltingarinnar, sem fólst í því að nota hugbúnað sem tól, yfir í tækni þeirrar fjórðu sem samþættar hugbúnað inn í vinnu starfsfólks og samskipti þeirra í rauntíma.  

Til að átta sig á stafrænni umbreytingu þá er gott að hugsa um skýjaþjónustur og snjallsímann. Þetta eru tvær af mörgum undirstöðum fjórðu iðnbyltingarinnar. Sú bylting er nefnilega fyrst og fremst hugbúnaðarbylting. Sem dæmi höfum við séð hvernig hugbúnaður og öpp hafa tekið við af tólum og tækjum. Í snjallsímanum er meðal annars hugbúnaður fyrir rauntímasamskipti, myndavél og staðsetningarbúnaður. Þannig tekur atvinnulífið  hugbúnað í notkun. Starfsfólk notar snjalltæki við vinnu, öpp senda skilaboð, gögnin fara í skýið, staðsetningar eru skráðar og upplýsingar safnast saman í rauntíma.   

Tökum dæmi um iðnaðarmann sem er að vinna við uppsetningu ljósa í skrifstofuhúsnæði sem verið er að taka í notkun. Þegar maðurinn mætir á staðinn, tilkynnir hann í appi að hann sé mættur. Þá skoðar hann verkbeiðnina og hvað þarf að gera. Hann skráir sig á verkið og tekur myndir af aðstæðum áður en hann byrjar. Þegar ljós eru uppsett eru aftur teknar myndir og verkið skráð sem lokið. Verkstjórinn getur þannig fylgst með í rauntíma hvernig verkefninu miðar áfram og hver staðan er á hverjum tíma. Reyndar getur verkstjórinn setið á skrifstofunni sinni og fylgst með framgangi alls starfsfólks. Fyrir iðnaðarmanninn er sjálfvirk tímaskráning, í stað þess að nota blað og penna, næg ástæða til að fagna svona rauntímaöppum.  

Hefðbundin fyrirtæki eru þannig að breytast þar sem hugbúnaður gegnir lykilhlutverki og tengir allt saman. Hvort sem það er banki,tryggingafélag, verslun eða flutningafélag. Venjuleg starfsemi verður stafræn með snjalltæki og hugbúnaði í skýinu.    

Hugbúnaðurinn er ekki bara eitthvað tól sem fólk notar eins og ritvinnsla eða töflureiknir, heldur er starfsemin samofin hugbúnaði. Starfsfólk sér verkefnin sín í snjalltækinu, uppfærir stöðu þeirra jafnóðum, gögnin safnast í skýið sem gefur rauntímayfirlit yfir allt sem er að gerast.   

Stafræn umbreyting felst þannig í að færa hugbúnaðinn inn í starfsemina. Í stað þess að starfsmaður ræði við verkstjóra um verkefnin og skrái tímana sína á pappír og geymi í vasanum, er snjallsíminn notaður til að miðla verkum og skrá framgang og stöðu. Tæknin sem fjórða iðnbyltingin byggir á, svo sem snjallsíminn og skýjalausnir, kom fram á fyrsta áratug aldarinnar. Þetta er því þroskuð og vel þekkt tækni. Nú er tíminn kominn að innleiða hana.   

Hugtök sem notuð eru í stafrænni umræðu   

Í umræðu um stafræna tækni koma fyrir nokkur almenn og mikið notuð hugtök. Hér eru skilgreiningar á nokkrum af þessum hugtökum:  

Ferli, vinnuferli, verkferli (e. Process, Work Process): Þau skref sem starfsfólk þarf að taka til að leysa ákveðin afmörkuð verkefni í starfsemi fyrirtækisins. Stundum eru þetta óskrifaðar reglur sem starfsfólk fær þjálfun í og lærir. Einnig eru fyrirtæki með skjalaða verkferla. Dæmi: Hver eru skrefin við að afgreiða pöntun, ráða nýtt starfsfólk eða viðbrögð við netárás?.   

Samskipti (e. Communication): Í þessu samhengi er þetta hugtak notað um það hvernig viðskiptavinir og starfsfólk fyrirtækis tala saman eða starfsfólk innan fyrirtækis. Hefðbundin samskipti viðskiptavina við fyrirtæki eru til dæmis þau að viðskiptavinur mætir í verslun og talar við starfsmann. Einnig er hægt að hringja, en minna er um það í dag að senda bréf en því meira um tölvupóst. Innan fyrirtækis er mikið um samskipti, hvort sem það er augliti til auglitis, með tölvupósti eða samskiptaforritum eins og Messenger eða Slack.   

Samhæfing (e. Coordination): Þetta er í raun og veru það sem þarf að gera til að fyrirtæki geti komið einhverju í framkvæmd. Þegar fyrirtæki er til dæmis að flytja inn vörur erlendis frá eru margir sem koma að slíkri framkvæmd. Þá þarf að samhæfa aðgerðir og verkefni eru unnin í ákveðinni röð af mörgum aðilum.   

Samhæfingakostnaður (e. Coordination Costs): Talað er um samhæfingakostnað sem þann kostnað sem fyrirtæki greiðir til að samhæfa aðgerðir. Ef margir aðilar þurfa að tala mikið saman og oft þá er samhæfingakostnaður hár. Ef hægt er að sjálfvirknivæða samhæfingu með stafrænni tækni þá lækkar þessi kostnaður. Með því að byggja samhæfingakostnaðinn inn í stafræn samskipti þá verður hann óverulegur. Dæmi: Viðskiptavinur fer til ferðastofu og ræðir við starfsmann um ferð. Starfsmaður tekur saman óskir og býr til tillögur og sendir viðskiptavini í tölvupósti. Viðskiptavinur velur úr tilboðum og starfsmaður bókar allt sem þarf. Þarna er samhæfingakostnaður hár, en þjónustan góð og sérhæfð að óskum viðskiptavinar. Önnur leið er að viðskiptavinur fer á Airbnb og bókar gistingu, fer svo í app flugfélags og bókar ferð. Þarna er samskiptakostnaður óverulegur enda er hann byggður inn í stafræn samskipti milli aðila í gegnum vefi eða öpp.   

Stafvæðing (e. Digitization): Það að breyta formi á gögnum frá analóg yfir í stafræn. Dæmi: Tónlist á segulbandi er sett yfir á stafrænt form í MP3 skrá. Mynd er skönnuð inn.   

Stafrænivæðing (e. Digitalization): Almennt hugtak um það að breyta frá analóg tækni í stafræna. Talað er um að ferli eða fyrirtæki sé stafrænivætt.   

Stafræn umbreyting (e. Digital Transformation): Það að breyta ferli, samskiptum eða samhæfingu frá analóg yfir í stafrænt form. Umsókn er ekki fyllt út á pappír með penna heldur á netinu, gögn vistuð beint í gagnagrunn og rafræn undirskrift notuð til að auðkenna. Enginn starfsmaður fyrirtækis þarf að taka við umsókninni eða skrá hana inn í kerfið.    

Stafræn vegferð (e. Digital Journey): Sá ferill innan fyrirtækis að umbreyta rekstri fyrirtækisins í stafræna ferla, samskipti og samhæfingu. Hér er átt við langtímaáætlun þar sem allir í fyrirtækinu koma að því verkefni að umbreyta starfsemi fyrirtækisins, skref fyrir skref í stafrænt fyrirtæki. Í þessu samhengi þarf að leggja áherslu á mannlega þáttinn því breytingar á fyrirtækjum og þeim kúltúr sem ríkir innan þeirra er breyting á því hvernig fólk sinnir sínum störfum.  

Mat á stafrænni stöðu fyrirtækja   

Ein af þeim áskorun sem við stöndum frammi fyrir er hvernig við metum stafræna stöðu fyrirtækis. Hversu langt fyrirtæki er komið í að gera starfsemina stafræna ef það á annað borð telur að það sé æskilegt.   

Þegar stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja fara í að umbreyta starfsemi þess þannig að hún verði stafræn þá er talað um stafræna umbreytingu eða stafræna vegferð. Til eru margar aðferðir við stafræna umbreytingu.     

Í þessari rannsókn er notað vel þekkt fimm fasa módel, sjá mynd 1. Í rannsókninni kom fram að 10% þeirra stjórnenda sem tóku afstöðu, töldu að ekki þyrfti að bæta stafræna hæfni innan fyrirtækisins.  

Módelið staðsetur fyrirtæki í einn af fimm fösum. Er þetta þá hugsað þannig að fyrirtæki fari frá fasa 1 yfir í fasa 5 í því verkefni sem kallast stafræn umbreyting. Nýsköpunarfyrirtæki sem er að byrja að móta sitt verklag gæti farið beint í 5. fasann. Auðvitað eru fyrirtæki almennt á ólíkum stað með tæknikerfi sín og kannski ekki einfalt að staðsetja þau í þessum módeli. Það er þó gott að hafa svona módel sem ramma um umbreytingu.   

Umbreyting er  frá því að fyrirtæki er lítið stafrænt í fasa 1 yfir í fullkomlega stafrænt í fasa 5. Fasi 1 felst í að sjálfvirknivæða vel afmarkaðan verkferil og koma upp þeim kerfum sem þarf, til dæmis taka í notkun skýjalausnir eða nýjan viðskiptahugbúnað sem flýtir fyrir og eykur framleiðni. Annað dæmi væri að breyta pöntunarkerfi frá því að vera í tölvupósti eða síma yfir í vefform sem fyllt er út og pöntun skráist sjálfkrafa í pöntunarkerfi. Þá er það tækniumhverfi komið sem þarf fyrir alla hina starfsemina.   

Fasi 2 er umbreyting einstakra verkþátta, nýjar stafrænar lausnir teknar í notkun en afmarkað. Mjög mikilvægt er að velja verkþátt sem er auðvelt að umbreyta og skilar miklum og sýnilegum árangri þannig að starfsfólk fái meiri trú á umbreytingunni. Í fasa 3 eru verkefni samstillt til að umbreyta verkþáttum þvert á fyrirtækið en á afmörkuðu sviði til að byrja með. Fleira starfsfólk í ólíkum deildum þarf að koma að verkinu. Í fasa 4 felst r ákveðin áskorun en það er að fyrirtækið sé  alveg samstillt. Í fasa 5 felst þó mesta áskorunin en það er að viðhalda kúltúr fyrirtækisins að hugsa allt stafrænt, það sem á annað borð er vitrænt að gera stafrænt.   

Helstu niðurstöður könnunar á stafrænni hæfni einstaklinga á vinnumarkaði, stjórnenda og stöðu fyrirtækja í stafrænni umbreytingu      

Könnunin um stöðu stjórnenda og fyrirtækja var gerð í nóvember og desember 2021 og lögð fyrir 1.300 manna úrtak og var svarhlutfall 50%. Könnunin um stöðu einstaklinga var gerð í desember 2021 og var lögð fyrir 2.000 manna úrtak og var svarhlutfall 47%. í báðum könnunum var spurt um mat á stafrænni hæfni í fimm meginþáttum. Skilgreiningin á stafrænni hæfni í könnunum byggir á skýrslu á vegum Evrópusambandsins um stafræna hæfni. Skýrslan kallast DigComp eða The European Digital Competence Framework og er tilraun til þróunar á hæfniramma um stafræna hæfni. Hægt er að fylgjast með vinnu Evrópusambandsins um stafræna hæfni hér: https://joint-research-centre.ec.europa.eu/digcomp_en  1    

 

Stjórnendur fyrirtækja 

Helstu niðurstöður þegar kemur að svörum stjórnenda eru þær að 12% töldu sig ekki vita á hvaða stigi stafrænnar umbreytingar þeirra fyrirtæki væri og 13% vildu ekki svara spurningunni. Af þeim sem svöruðu töldu flestir fyrirtækið ekki hafa farið í stafræna vegferð eða 42%. Hlutfall fyrirtækja sem eru í stafrænivæðingu er 57% af þeim sem tóku afstöðu. Flest þeirra eru í fasa 1 eða 25%, en aðeins 2% telja fyrirtækið vera stafrænan meistara þar sem fyrirtækjamenning gengur út á stafræna nýsköpun. Þegar litið er á öll fyrirtæki þá eru einungis 44% fyrirtækja í innleiðingu á stafrænum lausnum.  

Helstu niðurstöður þegar stjórnendur voru spurðir um stafræna hæfni eru þær að þátturinn skapandi notkun stafrænnar tækni og hæfniþátturinn að leggja mat á stafræna hæfnistuðningur við aðra og að bæta eigin hæfni raðast neðst af öllum hæfniþáttunum en þar meta stjórnendur sig með 3,7 á 6 punkta skala. Spurt var í hvaða þáttum stjórnendur töldu sig þurfa að bæta hæfni sína og var áhugavert að sjá að frekar hátt hlutfall eða 11% telja sig ekki vita það og 11% stjórnenda vildu ekki svara. Völdu flestir af þeim sem tóku afstöðu netöryggi (43%), stafræn markaðsmál (41%) og gagnageymslur (40%). Áhugavert er að breytingastjórnun og leiðtogahæfni (26%) og skapandi tækni og nýsköpun (25%) mælast ekki ofar á listanum og eru lökustu hæfniþættirnir í svörum stjórnenda þar að finna. Stjórnendur meta stafræna hæfni sína mesta í upplýsingaöflun um tækninýjungar, eða 4,5 á 6 punkta skala, og gefa sjálfum sér 4,4 í einkunn af 6 mögulegum þegar kemur að gagnrýnu mati á upplýsingum.  

   

Mat einstaklinga 

Helstu niðurstöður á stöðu stafrænnar hæfni einstaklinga eru að þeir meta sig með lakasta hæfni í að gera breytingar á eða þróa stafrænar lausnir sem geta leyst verkefni á sjálfvirkan hátt, að hluta til eða að öllu leyti eða með 2,8 af 7 mögulegum. Næstneðst á listanum yfir stafræna hæfni einstaklinga er notkun stafrænnar tækni til þekkingarsköpunar en einstaklingar meta sig með 3,8 af 7 í þeirri hæfni.   

Einstaklingar voru spurðir í hvaða málaflokkum þeir telji að fyrirtækið sem þeir vinni hjá mætti helst bæta sig og gátu valið allt að 19 þætti (sjá mynd 16). Hægt var að haka við alla þættina, en 28% töldu sig ekki vita í hvaða þáttum fyrirtækið mætti helst bæta sig í og fékk sá valmöguleiki hæsta hlutfallið. Þegar hlutfallið er skoðað hjá þeim sem tóku afstöðu um hvaða málaflokki fyrirtæki mættu bæta sig í sögðu flestir, eða 31%, breytingastjórnun og leiðtogahæfni. Næst á eftir töldu einstaklingar að fyrirtæki mættu bæta sig í gagnageymslu (25%), huga að líkamlegri og andlegri heilsu starfsfólks (24%) og gagnaöryggi (24%).   

Spurt var að því í hvaða þáttum einstaklingar telji að þeir þurfi að bæta hæfni sína og völdu flestir þeirra sem tóku afstöðu gagnageymslur (46%) og gagna- og netöryggi (46%).  

Einstaklingar meta hæfni sína besta í samskiptum, að þekkja viðeigandi hegðun í félagslegum samskiptum á netinu og gera sér grein fyrir því hvernig tæknin getur haft áhrif, sem mældist í 6,5 stigum á 7 punkta skala, og að búa yfir hæfni til samskipta á samskiptamiðlum og velja hentugasta miðilinn en þar var einkunnin 6,3 af 7.  

Við skoðun á bakgrunnsþáttum í svörum einstaklinga kom í ljós að einstaklingar sem búa á landsbyggðinni meta sig að öllu jöfnu með slakari stafræna hæfni eða að meðaltali 4,9 af 7 en heildarmeðaltalið er 5,1 af 7.    

 

Kynjamunur á stafrænni hæfni einstaklinga 

 Marktækur munur er á svörum kynjanna í nokkrum þáttum í svörum einstaklinga. Konur telja sig betri í eftirfarandi atriðum: að finna upplýsingar á netinu, að nota sjálfsafgreiðslulausnir á netinu, stafrænum samskiptum, að sýna viðeigandi hegðun í félagslegum samskiptum á netinu og að eiga í samskiptum á samskiptamiðlum.  Í stafrænni framkvæmd er einnig marktækur munur á svörum kynjanna og meta karlar sig með meiri hæfni þegar kemur að stafrænni framkvæmd en konur. Konur meta sig með meiri hæfni í stafrænu öryggi en karlar. Þó er munur á svari við spurningunni um hæfni til að vernda viðkvæm gögn, en þar meta karlar sig hærri en konur. Töluverður munur er á svörum kynjanna þegar kemur að hæfni til lausnaleitar en þar meta karlar sig með marktækt meiri hæfni en konur. 

 

Breytingastjórnun og leiðtogahæfni 

Bæði einstaklingar og stjórnendur telja mikla þörf á því að fyrirtæki þurfi að leggja aukna áherslu á leiðtogahæfni og breytingastjórnun. Hlutfall stjórnenda sem telja að þeir þurfi að bæta sig í þessum þætti er 26% á meðan 31% einstaklinga telja að fyrirtækið þurfi að bæta sig. Flestir einstaklingar haka við að þörf sé á aukinni áherslu á breytingastjórnun í fyrirtækjunum sem þeir starfa hjá, en fleiri stjórnendur telja sig þurfa að bæta hæfni sína í netöryggi, stafrænum markaðsmálum, gagnageymslum, gagnaöryggi, gagnagreiningu, sjálfvirknivæðingu og lagalegum atriðum umfram breytingastjórnun og leiðtogahæfni.     

   

Framkvæmd könnunar   

Stafræni hæfniklasinn samdi við Prósent að gera tvær kannanir. Í annarri var leitað álits stjórnenda fyrirtækja og í hinni var leitað til launafólks á vinnumarkaði eins og fram kemur að framan. Hugmyndin var að fá mynd af viðhorfi stjórnenda til að innleiða stafræna tækni og svo hversu vel fólk er að sér í notkun á stafrænni tækni. Einnig var gerður samanburður á viðhorfi þessara tveggja hópa til ýmissa þátta.   

Í stjórnendakönnun var gögnum safnað frá 29. nóvember til 30. desember 2021. Netkönnun var send á stjórnendur íslenskra fyrirtækja á einkamarkaði á Íslandi. Úrtak var 1.300 manns og svarhlutfall var 50%.   

Í könnun meðal launafólks á vinnumarkaði var gögnum var safnað frá 17. til 31. desember 2021. Netkönnun var send á könnunarhóp Prósents og var úrtakið 2000 manns og svarhlutfall 47%.   

Stafræn hæfni – spurningar í könnun   

Spurningarnar í könnununum byggja á skilgreiningum á stafrænni hæfni sem nálgast má í útgáfu á vegum Evrópusambandsins eða The Digital Competence Framework.1 Hæfniramminn um stafræna hæfni byggir á fimm meginþáttum stafrænnar hæfni. Sjá mynd 2.   

Fyrsti þátturinn tekur á meðhöndlun upplýsinga, til dæmis að finna upplýsingar á netinu og leggja gagnrýnið mat á þær. Annar þátturinn tekur á samskiptum, til dæmis að geta nýtt sér mismunandi samskiptamiðla, notað tækni til teymisvinnu og lagt mat á eigin hegðun á internetinu. Þriðji þátturinn fjallar um framkvæmd sem felst meðal annars í því að búa til stafrænt efni eða breyta því, fylgjast með tækninýjungum, stilla forrit og þróa stafrænar lausnir sem geta leyst verkefni á sjálfvirkan hátt. Fjórði þátturinn tekur á öryggi sem felst meðal annars í því að þekkja höfundarréttarvarið efni og hvenær má nota og dreifa stafrænu efni. Að gæta að líkamlegri og andlegri heilsu í tengslum við tækni og netnotkun er einnig hluti af öryggi ásamt því að kunna að vernda viðkvæm gögn og hugsa um hvort og hvernig skuli deila persónuupplýsingum á netinu. Fimmti og síðasti þátturinn fjallar um lausnaleit sem getur falist í að greina tæknileg vandamál og leysa þau, velja réttar tæknilausnir og geta lagt mat á eigin stafrænu hæfni og þekkt leiðir til að auka hana hverju sinni.    

Hér er greint frá niðurstöðum kannana um stafræna hæfni stjórnenda og einstaklinga. Báðar kannanirnar hafa þessa fimm stafrænu hæfniþætti til grundvallar í spurningunum sem lagðar voru fyrir en spurningar til stjórnenda voru helmingi færri en spurningar til einstaklinga.    

Í könnuninni sem lögð var fyrir einstaklinga var spurt sömu spurninga og í Stafræna hæfnihjólinu á www.stafrænhæfni.is. Yfirflokkurinn lausnaleit er þó nýr frá því að Stafræna hæfnihjólið fór í loftið og var spurningum í þeim flokki bætt við könnunina. Spurt var um fjögur atriði undir hverjum yfirflokki.   

   

Í könnuninni sem lögð var fyrir stjórnendur var spurt um samtals tíu hæfniþætti eða tvo undir hverjum yfirflokki eins og þeir koma fram á mynd nr. 2. Sömu skilgreiningar voru notaðar þegar spurt var um stafræna hæfni einstaklinga, en þó voru fleiri spurningar fyrir hvern yfirflokk í spurningum til einstaklinga. Ákveðið var að hafa spurningarnar til einstaklinga eins og í Stafræna hæfnihjólinu (www.stafrænhæfni.is), en ákveðið var að fækka spurningum til stjórnenda um helming.    

Stafræn hæfni stjórnenda  

Í könnuninni sem lögð var fyrir stjórnendur voru þeir spurðir tíu spurninga eða tveggja sem tilheyra hverjum yfirflokki á mynd 2. Stjórnendur voru spurðir eftirfarandi:    

   

Hversu vel eða illa eiga eftirfarandi lýsingar við um stafræna hæfni þína?    

  • Gagnrýnið mat á upplýsingum – Ég get meðhöndlað, skilið og lagt gagnrýnið mat á stafrænar upplýsingar sem eru sendar eða mótteknar, t.d. uppruna, trúverðugleika, hvenær og hvar upplýsingar birtust.  
  • Gagnageymsla – Öryggi – Ég get sniðið, skipulagt og geymt stafrænt efni þannig að það haldist öruggt en aðgengilegt.  
  • Gagnageymsla – Skráarsnið – Ég get búið til, sett saman og breytt stafrænu efni á mismunandi snið, til dæmis myndum, textum, upptökum og hljóði.  
  • Samskipti – Virk þátttaka – Ég get og sýni áhuga á að nota stafræna miðla til tjáskipta eða til að gera mig sýnileg/a/n/t á annan hátt.  
  • Samskipti – Samvinna – Ég get notað tækni og mismunandi miðla til teymisvinnu, samræmingar og vinnu eftir sameiginlegum verkferlum.  
  • Upplýsingaöflun um tækninýjungar – Ég get og vil fylgjast með þróun tækninnar og kynna mér nýjungar í tækninotkun.  
  • Lagaleg atriði – Ég þekki gildandi lög og leyfi varðandi hegðun, upplýsingar og efni á stafrænu formi, eins og t.d. að vita hvenær er viðeigandi og hvenær má setja fram viðkvæm gögn.  
  • Gagnavernd – Ég get greint og verndað viðkvæm gögn (t.d. með lykilorðum eða dulkóðun) og skil hættuna sem í þeim felst.  
  • Skapandi notkun stafrænnar tækni – Ég get notað stafræna tækni til þekkingarsköpunar og til að skapa nýja ferla eða vörur.  
  • Mat á stafrænni hæfni, stuðningur við aðra og sjálfsþróun – Ég skil hvar ég þarf að bæta eigin stafræna hæfni. Ég get einnig stutt aðra í stafrænni þróun. Ég get leitað tækifæra til sjálfsþróunar og fylgist með nýjungum í stafrænni þróun.   

Helstu niðurstöður á mati á stafrænni hæfni stjórnenda eru að þeir meta hæfni sína mesta í upplýsingaöflun um tækninýjungar og að geta lagt gagnrýnið mat á upplýsingar, en meðaltal á stafrænni hæfni stjórnenda er 4,1 af 6 mögulegum.    

Þeir hæfniþættir sem stjórnendur meta sig lakasta í eru skapandi notkun á stafrænni tækni og mat á stafrænni hæfni, stuðningur við aðra og sjálfsþróun. Báðir þættir fá 3,7 af 6. Sú niðurstaða er áhugaverð í ljósi þess að skapandi notkun á stafrænni tækni er lykilþáttur í stafrænni vegferð fyrirtækja. Einnig vekur athygli að stjórnendur gefi sér laka einkunn þegar kemur að stuðningi við aðra, sjálfsþróun og eigið mat á stafrænni hæfni, en það er vísbending um að stjórnendur séu ekki vissir um hvernig þeir eigi að auka stafræna hæfni í teymum sínum eða hjá sjálfum sér. En aðeins 29% svarenda telja sig geta það að miklu eða mjög miklu leyti. 

Málaflokkar sem stjórnendur þurfa að bæta hæfni sína í   

Hér voru stjórnendur spurðir:   

Í hvaða málaflokkum telur þú að þú þurfir að bæta þína stafrænu hæfni?   

Hér má sjá að 43% stjórnenda sem taka afstöðu telja sig þurfa að bæta sig mest í því sem snýr að netöryggi og gagnageymslum en þar er átt við að geta skipulagt og geymt stafrænt efni þannig að það haldist öruggt og aðgengilegt. Einnig vilja 41% stjórnendur bæta stafræna hæfni sína þegar kemur að stafrænum markaðsmálum.   

Athyglisvert er að þegar svör allra stjórnenda sem svöruðu eru skoðuð þá telja 11% sig ekki vita í hvaða málaflokkum þeir vilja bæta sig í og önnur 11% vildu ekki svara. Það má því segja að um 22% stjórnenda vilja eða geta ekki tekið afstöðu til þessarar spurningar.    

Málaflokkar sem fyrirtækið þarf að bæta hæfni   

Hér voru stjórnendur spurðir:   

Í hvaða málaflokki telur þú að fyrirtækið sem þú vinnur hjá mætti helst bæta sig í?   

Af þeim stjórnendum sem tóku afstöðu telja 36% mikilvægast að fyrirtæki auki hæfni sína í stafrænum markaðsmálum. Þar á eftir telja stjórnendur að mikilvægt sé að fyrirtæki bæti sig í netöryggi, gagnaöryggi og gagnageymslum (skipulagning og geymsla á stafrænu efni þannig að það haldist öruggt). Athyglisvert er að 10% stjórnenda telja að fyrirtækið sem það vinni hjá þurfi ekki að bæta sína stafrænu hæfni.   

Stig stafrænnar umbreytingar   

Hér voru stjórnendur spurðir á hvaða stigi stafrænnar umbreytingar fyrirtækið sé.  Einnig fengu stjórnendur nánari útskýringu á spurningunni; Stafræn umbreyting felst í því að taka venjulega starfsemi fyrirtækja og stafrænivæða hana; láta hugbúnað sjá um vinnu og samþættingu sem annars þyrfti aðkomu starfsfólks. Hluti af því ferli felst í því að greina og umbreyta gögnum og ferlum fyrirtækja í stafrænar lausnir.   

Við gerð þessarar spurningar var notast við þroska módelið sem má lesa nánar um í kaflanum Mat á stafrænni stöðu fyrirtækja fremst í skýrslunni.   

Af þeim stjórnendum sem tóku afstöðu sögðu 42% að fyrirtækið sem þau starfa hjá hafi ekki farið í stafræna vegferð og aðeins 2% að fyrirtækjamenning gangi út á stafræna nýsköpun (stafrænir meistarar). Einnig þótti varhugavert að 12% stjórnenda segjast ekki vita hvar fyrirtækið sé staðsett í stafrænni vegferð og 13% vildu ekki svara þessari spurningu.  Meðaltal svara var 1,2 á kvarðanum 1 – 6 sem sýnir að íslensk fyrirtæki eru komin mjög stutt á veg í stafrænni vegferð.  

Stafræn hæfni einstaklinga á vinnumarkaði   

Í könnuninni sem gerð var meðal einstaklinga voru þeir beðnir um að meta stafræna hæfni sína út frá tuttugu hæfniþáttum á skalanum frá einum upp í sjö. Sjá má útskýringu á flokkunum um stafræna hæfni á mynd 2 framar í skýrslunni. Þegar svör einstaklinga eru skoðuð kemur í ljós að þeir meta sig hæst þegar kemur að því að sýna af sér viðeigandi hegðun í samskiptum á netinu og að gera sér grein fyrir því hvernig tæknin getur haft áhrif eða 6,6  af 7 mögulegum. Einstaklingar meta sig með lökustu hæfnina í framkvæmd, þ.e. að gera breytingar á eða þróa stafrænar lausnir eða 2,8 af 7 mögulegum og þar fyrir ofan í lausnaleit, þ.e. notkun stafrænnar tækni til þekkingarsköpunar með 3,8 af 7. Sjá nánar á mynd 9.   Hér á eftir fer nánari greining á svörum einstaklinga í hverjum flokki fyrir sig.    

Upplýsingar 

Þegar spurt er um upplýsingar svara um 95% einstaklinga að þau geti leitað og fundið upplýsingar að mjög miklu, miklu, vissu eða einhverju leyti á netinu. Geta og vilji til að nota sjálfsafgreiðslulausnir á netinu mælist einnig mjög há eða um 94% þegar sömu flokkar eru lagðir saman. Karlar meta sig marktækt með lakari hæfni í báðum þessum þáttum með um 6 af 7 stigum en konur með 6,4 í báðum spurningunum.    

Undir upplýsingum er einnig spurt um hæfni til að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar á netinu og að skipuleggja og geyma stafrænt efni og er einkunn þar svipuð á milli kynja.  

Svör þeirra sem búa á landsbyggðinni eru yfirleitt marktækt lægri en hjá þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu, mesti munurinn er þegar spurt er að hve miklu eða litlu leyti þú ert að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar á netinu þar sem svör þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu er 5,9 í en svör þeirra sem búa á landsbyggðinni er 5,5.  

Samskipti

Í heild meta einstaklingar sig hátt í stafrænum samskiptum eða með 5.5 af 7 mögulegum þegar meðaltal svara er skoðað. Þegar spurt er að því hvort svarendur telji sig vera með viðeigandi hegðun í félagslegum samskiptum á netinu telja yfirgnæfandi svo vera eða 95% þeirra sem svara. Fær þessi spurning því hæsta jákvæða svar af öllum spurningum einstaklinga eða 6,5 af 7 mögulegum. Einnig eru um 94% einstaklinga sem telja sig geta valið hentugasta miðilinn til samskipta. Hins vegar eru 41% einstaklinga sem nota lítið eða nánast ekkert stafræna miðla til tjáskipta eða gera sig sýnilega á stafrænum miðlum.  Áhugavert er að ekki mælist marktækur munur á svörum milli aldurshópa við þessari spurningu. Hins vegar er mestur munur á svörum kynjanna við þessari spurningu, en konur telja sig nota meira stafræna miðla til tjáskipta og gera sig sýnilegri á stafrænum miðlum en karlar. Konur gefa sér í einkunn 4,4 af 7 en karlar gefa sér 3,9. 

Konur gefa sér marktækt hærri einkunn en karlar í öllum spurningunum um stafræn samskipti nema þegar spurt er um notkun tækni og miðla til teymisvinnu en þar ekki marktækur munur. 

Áhugavert er að yngsti hópurinn 18-24 ára metur sig marktækt lægri en aldurshóparnir 25 til 54 ára þegar kemur að félagslegum samskiptum á netinu og að gera sér grein fyrir því hvernig tæknin getur haft áhrif, eða 6,3 af 7 mögulegum.  Aldurshópurinn 65 ára og eldri eru síðan með lægstu einkunnina eða 6,0 af 7 mögulegum og mælist lægstur í öllum þáttum sem spurt er um í þessum flokki nema notkun stafrænna miðla til tjáskipta en þar er ekki marktækur munur á milli aldurshópa. Aldurshópurinn 45-54 ára mælist hér hæstur með 6,8 af 7.  

Stafræn framkvæmd 

Í flokknum stafræn framkvæmd meta einstaklingar sig lægst og er meðaltalið þar 4,1 af 7. Undir þessum flokki er spurt út í þætti eins og að búa til, setja saman og breyta stafrænu efni, stilla forrit og fylgjast með þróun tækninnar og annað sem snýr að því að framkvæma í stafrænu umhverfi. Hlutfall einstaklinga sem segjast nánast ekkert geta gert breytingar á eða þróað stafrænar lausnir er 37% og fær sú spurning lægstu einkunn af öllum spurningunum í könnuninni.   

Þau sem starfa í iðnaðarstörfum og í skrifstofustörfum mátu sig með marktækt lægri hæfni  til að gera breytingar á og þróa stafrænt efni en einstaklingar í öðrum störfum á almennum markaði.   

Í þessum flokki er einnig marktækur munur á svörum kynjanna og meta karlar sig með meiri hæfni þegar kemur að stafrænni framkvæmd en konur. Lægst meta konur sig í getu til að gera breytingar á eða þróa stafrænar lausnir eða með 2,4 stig af 7, en karlar með 3,3. Þó er ekki marktækur munur á svörum kynjanna þegar spurt er um að búa til, setja saman og breyta stafrænu efni.   

 Öryggi 

Í flokknum öryggi er spurt um fjóra ólíka þætti sem tengjast stafrænu öryggi en þar meta einstaklingar sig með ágæta hæfni eða að meðaltali 5,2 stig af 7 mögulegum. Þar er spurt um þekkingu á lögum og leyfum varðandi hegðun, upplýsingar og efni á stafrænu formi, líkamlega og andlega heilsu í tæknilegu umhverfi nútímans, getuna til að vernda viðkvæm gögn og mat á persónuupplýsingum sem deilt er á netinu. Svörunin er ólík milli spurninga og áhugavert er að 23% telja sig hafa litla eða nánast enga þekkingu á gildandi lögum og leyfum varðandi hegðun, upplýsingum og efni á stafrænu formi. Svipaðar niðurstöður fengust þegar kemur að getu einstaklinga til að vernda viðkvæm gögn og komið auga á þegar óprúttnir aðilar reyna að komast yfir viðkvæmar upplýsingar. Aldurshópurinn 65 ára og eldri mælist með marktækt lægri hæfni í öllum spurningunum um stafrænt öryggi.   

Marktækur munur er á svörum kynjanna, en konur meta sig með marktækt meiri hæfni í stafrænu öryggi en karlar. Þó er munur á svari við spurningunni um hæfni til að vernda viðkvæm gögn, en þar meta karlar sig marktækt hærri eða 4,8 stig af 7 en konur með 4,6.   

 Lausnaleit 

Lausnaleit er yfirheiti spurninga sem fjalla um að geta greint tæknileg vandamál, að geta greint þarfir og valið tæknilegar lausnir, að geta notað stafræna tækni til þekkingarsköpunar og að þekkja eigin stafræna hæfni og hafa getu til þess að bæta og uppfæra þekkingu sína. Af fjórum spurningum um lausnaleit fær spurningin um notkun stafrænnar tækni til þekkingarsköpunar lökustu niðurstöðuna, en tæplega helmingur þeirra sem svara telja sig aðeins geta notað stafræna tækni til þekkingarsköpunar að litlu eða engu leyti. Aðrir hæfniþættir í lausnaleit mælast mjög hátt en u.þ.b. 80% telja sig geta bætt þá stafrænu hæfni sem vantar hverju sinni, geta greint tæknileg vandamál og þarfir og valið tæknilegar lausnir til þess að uppfylla þær.   

Yngstu hóparnir, 18 til 34 ára meta sig með hæstu stafrænu hæfnina í lausnaleit eða 5,6 af 7, 35-44 ára metur sig með 5,2, 45-54 ára metur sig með 4,8, 55-64 ára metur sig með 4,2 og 65 ára og eldri meta sig með 3,4 af 7. Elsti aldurshópurinn metur sig með marktækt lægri hæfni í öllum þáttum lausnaleitar en hinir aldurshóparnir.    

Svör kynjanna eru ólík í spurningunum um lausnaleit og mælast konur marktækt lægri en karlar í öllum spurningunum nema um þekkingu á stafrænni hæfni og getunni til að bæta þá þekkingu sem vantar hverju sinni, en þar er ekki marktækur munur. Munurinn mælist hvað mestur þegar spurt er um notkun stafrænnar tækni til þekkingarsköpunar, en konur meta sig í 3,5 en karlar  4,1 af 7 mögulegum. Einnig er svipaður munur þegar kemur að því að greina tæknileg vandamál við notkun tæknibúnaðar þar sem konur eru með 4,8 en karlar með 5,4.   

Málaflokkur sem einstaklingar vilja bæta hæfni sína  í

Af þeim sem taka afstöðu, vilja 46% einstaklinga  bæta hæfni sína í að nota gagnageymslur og gagnaöryggi. Þar á eftir koma gagnagreining (37%), gagnavinnsla (37%) og lagaleg atriði (34%).    

Um þriðjungur telur sig þurfa að bæta hæfni sína í stafrænni tækni og skapandi notkun stafrænnar tækni og nýsköpunar.  Einnig eru 27% einstaklinga sem vilja bæta sig í stillingum á forritun og úrlausn og greiningu vandamála.      

Hlutfall karla sem telur sig þurfa að auka hæfni sína í samskiptamiðlun og notkun þeirra til tjáskipta er 17%, en einungis 10% kvenna. 37% kvenna telja sig þurfa að auka hæfni sína í stafrænni tækni og skapandi notkun stafrænnar tækni og nýsköpunar, en 30% karla telja sig þurfa að auka þá hæfni.    

Málaflokkar sem einstaklingar á vinnumarkaði vilja að fyrirtækið bæti hæfni sína í    

Þegar einstaklingar eru spurðir að því í hvaða málaflokki fyrirtækið sem þau starfa hjá þurfi að bæta hæfni sína segjast 28% ekki vita það, sjá mynd 16. Af þeim sem tóku afstöðu svara flestir eða 31% breytingastjórnun og leiðtogahæfni en 34% karla telja fyrirtæki þurfa að auka þá hæfni sem er töluvert meira en hjá konum eða 28%.   

Næst á eftir breytingastjórnun telja 25% svarenda fyrirtæki þurfa að bæta hæfni sína í skipulagningu og geymslu á stafrænu efni eða gagnageymslu.    

Af þeim sem tóku afstöðu telja 24% að fyrirtæki mættu bæta sig í að huga að líkamlegri og andlegri heilsu starfsfólks í tæknilegu umhverfi nútímans. Næst á eftir koma gagnaöryggi, sjálfvirknivæðing og gagnagreining.  

Hlutfall þeirra sem svara og telja sig ekki vita á hvaða stigi stafrænnar umbreytingar fyrirtækið sem þeir starfa hjá er 28%. En af þeim sem tóku afstöðu telja 34% fyrirtækið vera samstillt að hluta.    

Munur er á svörum karla og kvenna en 31% kvenna telja fyrirtækið samstillt að hluta, en 39% karla telja svo vera. Karlar telja fyrirtæki vera komin á hærra stig að meðaltali en konur. 

Samanburður á viðhorfi stjórnenda og starfsfólks um hvað fyrirtækið á helst að bæta sig í

Kannað var viðhorf stjórnenda og starfsfólks á vinnumarkaði til þess í hvaða málaflokkum fyrirtækið þarf helst að bæta sig  þegar kemur að stafrænni hæfni þess. Spurt var „Í hvaða málaflokkum telur þú að fyrirtækið sem þú vinnur hjá mætti helst bæta sig?“ og þátttakendur beðnir að haka við alla málaflokka sem komu til greina.   

Af einstaklingum sem tóku afstöðu völdu flestir eða 31% breytingastjórnun og leiðtogahæfni á meðan einungis 21% stjórnenda töldu að bæta þyrfti þennan þátt (Mynd 18). Stjórnendur leggja helsta áherslu á að fyrirtækið þurfi að bæta sig í stafrænum markaðsmálum og net- og gagnaöryggi á meðan starfsfólk leggur áherslu eins og áður hefur komið fram á breytingastjórnun og leiðtogahæfni (Mynd 19).  

Það sem er sérstaklega athyglisvert við svör starfsfólks á vinnumarkaði er að 28% merkja við „veit ekki“ og 7% „vil ekki svara“. Þannig er 35% starfsfólks ekki viss um í hvaða málaflokkum fyrirtækið mætti bæta sig. Svipað mat er hjá stjórnendum þar sem 18% stjórnenda merkja við „veit ekki“ og 17% svara „vil ekki svara“. 
 

Ljóst er að það er mannlegi þátturinn sem er hvað afdrifaríkastur þegar kemur að því að innleiða stafrænar breytingar í fyrirtækjum. Niðurstöður könnunarinnar gefa stjórnendum ríka ástæðu til þess að skoða hvernig þeir geti bætt sig í að veita samstarfsfólki stuðning og leita leiða til að auka stafræna hæfni í teymum sínum og hjá sjálfum sér.   

Lokaorð  

Tæknibyltingar hafa þann eiginleika að vera frekar ósýnilegar. Breytingar eru margar og smáar og taka sinn tíma. Þær eru líka stanslausar. Það er ekki fyrr en við lítum til baka að við sjáum allar framfarirnar sem hafa orðið og áttum okkur á hve mikið hefur breyst. Hlutir sem við gerðum áður eru horfnir og aðrir hafa tekið við. Tímabil fjórðu iðnbyltingarinar, sem við erum að upplifa núna, er ekkert frábrugðið. Stafræn umbreyting er sífellt að breyta stöðu fyrirtækja á markaði og störfum fólks. Ný fyrirtæki sem og rótgróin þurfa að læra að bregðast hratt við nýjungum og aðlaga starfsemina til að lenda ekki undir heldur halda áfram að vaxa. Þau fyrirtæki sem taka þessum áskörunum munu dafna.  

Á næstu árum eru mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf að laga sig að breyttum heimi með nýrri tækni sem byggir á rauntímahugbúnaði, gervigreind og sjálfvirkum vélum. Til að nýta þessi tækifæri hafa aðilar atvinnulífsins tekið sig saman, atvinnurekendur og samtök launafólks ásamt menntastofnun og sett á fót Stafrænana hæfniklasann, óhagnaðardrifinn vettvang til vitundarvakningar, fræðslu og tengsla. Fjórða iðnbyltingin og stafræn umbreyting atvinnulífsins eru tækifæri. Við Íslendingar ættum ekki að missa af því tækifæri til framþróunar.