Skip to main content

Þrátt fyrir allt hefur Covid tíminn haft í för með sér ýmislegt jákvætt, ekki síst það að sífellt fleiri hafa öðlast skilning á mikilvægi stafrænna umbreytinga og þeim stórkostlegu tækifærum sem þær skapa. Augu manna hafa opnast fyrir öllum þeim áður ónýttu möguleikum sem stafræn tækni býður uppá. Fundahöld á netinu, stafrænir viðburðir hverskonar eru nú orðnir daglegt brauð, með öllum þeim tíma- og orkusparnaði sem slíkt hefur í för með sér. Undanfarin fjögur til fimm ár hafa SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu lagt áherslu á stafræna umbreytingu í öllu fræðslu- og kynningarstarfi sínu.

Á liðnu ári höfum við hjá SVÞ haldið áfram á sömu braut og áður, trú þeirri staðföstu skoðun okkar að öflugt átak við að efla stafræna hæfni og stafræna þekkingu alls staðar í atvinnulífinu, sé ein af frumforsendunum fyrir því að Ísland haldi stöðu sinni áfram meðal fremstu þjóða heims hvað lífskjör varðar. Gert var samkomulag milli stjórnvalda annars vegar og Samtaka verslunar og þjónustu, VR og Háskólans í Reykjavík hins vegar um að setja á laggirnar „Stafrænan hæfniklasa“ sem  hefur það hlutverk að efla stafræna hæfni bæði í atvinnulífinu og á hinum almenna vinnumarkaði. Með þessu sameina stjórnvöld, atvinnurekendur í verslun og þjónustu, launþegahreifing og háskólasamfélagið krafta sína í þessu efni. 

Það er mikið í húfi að vel takist hér til. Til þess að Ísland verði áfram samkeppnishæft og íslensk fyrirtæki geti veitt hinum stóru alþjóðlegu fyrirtækjum verðuga samkeppni, verður þekking á stafræna sviðinu að taka stökk fram á við. Við erum þegar langt á eftir samanburðarþjóðum okkar í þessum efnum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er heill kafli um stafrænar umbreytingar þar sem m.a. segir að ríkisstjórnin hafi einsett sér að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu og að lögð verði áhersla á að styrkja stafræna hæfni fólks og getu þess til að leggja gagrýnið mat á upplýsingar.  Óneitanlega hefði verið gaman að sjá í stjórnarsáttmálanum sterkar kveðið að orði um efla menntakerfið til þess að gera því kleift að bæta stafræna hæfni á öllum sviðum samfélagsins. Það er algert lykilatriði að menntakerfið í heild sinni taki þessi mál föstum tökum og efli færni kennara til að miðla þekkingu á þessu sviði til nemenda. Það verður eitt af stóru verkefnum nýhafins kjörtímabils að vinna þeim málum framgang. 

Sú viðhorfsbreyting sem hefur þegar orðið hér á landi í þessum efnum er mikil fagnaðarefni. Mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu eru þegar komin á hraðferð í stafrænum breyingum. Á því ári sem nú er nýhafið mun verða haldið áfram á sömu braut, þar sem áherslan verður lögð á enn frekari þróun á sviði stafrænnar umbreytingar innan fyrirtækja okkar. Það sem er undir er hvernig við getum viðhaldið og tryggt samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í þeirri sífellt harðnandi alþjóðlegu samkeppni sem þau eiga við að glíma. Þetta er stórt en að sama skapi gríðarlega mikilvægt viðfangsefni. 

Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu