Skip to main content

Ef það er eitthvað sem verður stöðugt betur augljóst þá er það að fyrirtæki, stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja, þurfa að verða betri í því að tileinka sér nýja þekkingu og tækni. Það er erfitt að finna rök eða rannsóknir sem benda til annars. Lykillinn að þessu er að byggja upp lærdómsfyrirtæki. Lærdómur, sem felur í sér innleiðingu á þekkingu og hæfni, verður að vera kjarnafærni fyrirtækja. Engin áhersla á þjálfun og menntun starfsmanna hlýtur að leiða til stöðnunar í því kvika viðskiptaumhverfi sem fyrirtæki hrærast núna í.

Sveltur þjálfunin?

Það er umdeilt hvað á að fjárfesta mikið í menntun og þjálfun stafsmanna. Að sjá menntun og þjálfun sem fjárfestingu frekar en kostnað er þó risaskref varðandi hvernig við hugsum um þessi mál. En það þýðir líka að fjárfestingin verður að skila sér!

Það má færa fyrir því rök að hlutfall þjálfunar og menntunar af launakostnaði ætti að vera yfir 10%. Það myndi þýða að fjárfesting í hverjum starfsmanna með mánaðarlaun upp á 830.000 krónur væri um milljón krónur á ári. Óformlegar rannsóknir benda til þess að þetta hlutfall hjá fyrirtækjum sé líklegra að vera nær 100 þúsund krónum eða 1%.

Þetta er skiljanlegt ef að stjórnendur sjá þjálfun og menntun starfsmanna sem kostnað frekar en fjárfestingu. Hugsanlega er hægt að réttlæta slíka hugmyndafræði ef að stjórnendur fyrirtækja líta enn á viðskiptaumhverfið eins og við værum í framleiðsluhagkerfi. Það er hins vegar erfitt að horfa fram hjá því að íslensk fyrirtæki starfa núna í þekkingarhagkerfi. Drifkraftur verðmætasköpunar er þá þekking og hæfni starfsmanna.

Það má færa fyrir því rök að hlutfall þjálfunar og menntunar af launakostnaði ætti að vera yfir 10%. Það myndi þýða að fjárfesting í hverjum starfsmanna með mánaðarlaun upp á 830.000 krónur væri um milljón á ári

Það sem vekur ekki síður athygli er að starfsmenntasjóðir eru alls ekki fullnýttir af fyrirtækjum. Starfsmenn geta í sumum tilvikum nýtt sér um 300.000 krónur úr starfsmenntasjóðum og fyrirtæki um þrjár milljónir. Stjórnendur fyrirtækja sjá ekki einu sinni ástæðu til þess að nýta þessa fjármuni. Það þýðir að þetta er ekki spurning um kostnað heldur skilnings- og áhugaleysi stjórnenda.

Sjálfsbjargarviðleitni

Stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa meðvitað eða ómeðvitað tekið ákvörðun um að svelta þjálfun og menntun starfsmanna. Ábyrgðin er þeirra vegna þess að ef að tilgátan um að lærdómur, aukin þekking og hæfni, sé fjárfesting sem skilar sér í langtíma árangri fyrirtækja þá eru þeir að bregðast hlutverki sínu.

En ábyrgðin er ekki einungis stjórnenda! Við erum vaxin upp úr uppeldishugmyndafræði síðustu áratuga. Þar var hugmyndin að við færum í skóla einn þriðja hluta ævi okkar og vinna einn þriðja hluta og færum svo á eftirlaun. Þá var hugmyndin að skólar og kennarar gætu undirbúið alla fyrir lífið á þessu fyrsta hluta ævinnar. Ef einhver sótti frekari menntun eftir það, þá var það kallað endurmenntun! Þetta er úrelt hugmyndafræði. Gamla kerfið byggði á þeirri nálgun að fólk væri meira eða minna í sama starfi alla ævi og jafnvel hjá sama vinnuveitanda. Þetta er þegar orðin fortíð en ekki samtíð, hvað þá framtíðin. Fólk þarf jafnvel að söðlu um nokkrum sinnum á lífsleiðinni og vera að stöðugt að uppfæra sig til þess eingöngu að halda í við tækni og umbreytingar sem verða í fyrirtækjum og samfélaginu. Þá er ekki lengur nægjanlegt að styðjast við það sem fólk lærði fyrir 25 ára aldur.

Allt of margir virðast hins vegar ekki átta sig á þessum breytingum sem hafa orðið fyrr en þau reka sig á vegg. Þau missa starfið og viðurværið og átta sig á að það er engin eftirspurn eftir því sem þau kunna og geta lengur. Þá er svolítið seint að fara gúggla „endurmenntun“.

Gamla kerfið byggði á þeirri nálgun að fólk væri meira eða minna í sama starfi alla ævi og jafnvel hjá sama vinnuveitanda. Þetta er þegar orðin fortíð en ekki samtíð, hvað þá framtíðin.

Ábyrð fyrir menntun og þjálfun er ekki lengur hjá ríki eða sveitarfélögum, fólk verður að taka ábyrgð á framtíð sinni sjálft. Eina leiðin er að þjálfa og mennta sig stöðugt, en ekki einungis láta staðar numið hvað varðar menntun eftir háskóla eða tækniskóla. Það á ekki að þurfa að verðlauna fólk til þess að mennta sig og þjálfa heldur á að það vera grunnviðleitni til þess að lifa af og komast áfram á þeirri vegferð sem fólk er. Þörfin og áhuginn verður að koma innanfrá hjá hverjum og einum, ekki einugis í formi sjálfsbjargarviðleitni heldur sem grundvöllur af því lífi og árangri sem fólk vill ná í lífinu.

Án þess að fólk sé stöðugt að þjálfa sig og mennta þá staðnar það, einfaldlega vegna þess að það sem það kunni og gat verður úrelt sem aldrei áður. Án þess að starfsmenn séu stöðugt að þjálfa og mennta sig, staðna fyrirtæki líka og að lokum eiga enga framtíð í samkeppni.

Kjarnafærni til árangurs

Allt of margir stjórnendur láta hjá leiðast að velta fyrir sér þjálfun og menntun starfsmanna. Þau segja að þörfin sé ekki fyrir hendi. Á sama tíma benda t.d. flestar ef ekki allar rannsóknir sem hafa verið að skoða starfsþróun og breytingar á störfum í kringum starfrænar umbreytingar að meira en helmingur starfsmanna þarf verulega þjálfun og menntun til þess að halda í við nýja tækni. Og þá er einungis verið að tala um eina tegund tækni. Tæknin er að umbreytast á miklu fleiri sviðum.

Allt of margir stjórnendur láta hjá leiðast að velta fyrir sér þjálfun og menntun starfsmanna. Þau segja að þörfin sé ekki fyrir hendi.

Það sem er umhugsunarvert og hlýtur að vera áskorun fyrir íslenskt atvinnulíf er að stjórnendur eru ekki meðvitaðir eða eru ekki að beita sér til þess að bregðast við þessari þróun. Akademias (menntun fyrir tækifæri framtíðarinnar) í samstarfi við Mannauð – Félag mannauðsfólks á Íslandi er að þróa ákveðna aðferðafræði til þess að meta hvort fyrirtæki eru „Lærdómsfyrirtæki“. Þá er þróunarferli fyrirtækja hvað varðar þjálfun og menntun starfsmanna skipt í fimm þrep, frá því þar sem engin áhersla er á þjálfun og menntun í það að verða lærdómsfyrirtæki. Þó að ekki sé búið að gera ítarlega rannsókn þá bendir margt til að íslensk fyrirtæki séu almennt á fyrstu tveimur þrepunum og eigi verulega langt í land að verða það sem mætti kalla lærdómsfyrirtæki.

Þetta skiptir máli ef við trúum því að fjárfesting í mannauði, þjálfun og menntun starfsmanna, sé grundvallaratriði í framþróun þekkingarfyrirtækja. Þetta þýðir með öðrum orðum að samkeppnisfærni íslenskra fyrirtækja gæti farið hratt dvínandi og hagsæld versnandi. Þetta gerist kannski ekki á einum degi en það kemur að því að stjórnendur vakna einn góðan veðurdag og velta fyrir sér af hverju þeir misstu af lestinni.

Áskorunin er núna og það er þörf fyrir nýja nálgun og meiri áherslu á menntun og þjálfun starfsmanna þannig að lærdómur verði í auknum mæli að kjarnafærni til árangurs.

Höfundur er forseti Akademias

Greinin birtist á Innherja 17.Janúar 2022.