Skip to main content

Áður en fyrirtæki leggja af stað í sína stafrænu vegferð þarf að huga að ákveðnum þáttum til þess að vera viss um að réttu skrefin séu tekin á réttum tíma í rétta átt. Mikilvægt er að undirbúa slíka vegferð vel með viðkomandi teymum innan fyrirtækja eða með því að fá utanaðkomandi ráðgjöf.

Stafræn vegferð fyrirtækja er margvísleg og í raun eins ólík og fyrirtækin eru mörg. Eitt er þó sameiginlegt með þeim öllum og það er að markmiðið með slíkri vegferð er nær undantekningarlaust að auka og bæta þjónustu við viðskiptavini, nútímavæða tækniumhverfi og nýta gögn betur þannig að reksturinn verði skilvirkari.

Stafræn vegferð er oft með áherslu á bætta þjónustu, en möguleikarnir eru margvíslegir og geta verið allt frá því að uppfæra grunnkerfi og innleiða nútímatæknilausnir yfir í að þróa viðskiptavinamiðaðar sjálfsafgreiðslulausnir og allt þar á milli.

Þegar fyrirtæki leita til Júní og vilja hefja sína stafrænu vegferð opnar það á ýmsa möguleika fyrir framhaldið. Þá vakna oft stórar spurningar sem vert er að staldra aðeins við og ræða áður en farið er að stað.

Það skiptir í raun ekki máli hvers eðlis verkefnin eru, það sem skiptir máli í stafrænni vegferð er stefna fyrirtækisins, markmið, kostnaður, ávinningur og framkvæmd verkefnanna.

Í raun má segja að eftirfarandi skref lýsi ferlinu nokkuð vel.

Móta stafræna stefnu

Mörg fyrirtæki hafa nú þegar mótað sína stafrænu stefnu eða uppfært stefnuna í takt við ört vaxandi tækniumhverfi. Það eru hins vegar mörg fyrirtæki sem hafa ekki lagt af stað með  þessa vegferð vegna margvíslegra ástæðna. Reynslan hefur samt sýnt okkur að þau fyrirtæki sem að taka þessu föstum tökum hafa náð að fara hratt af stað í sína stafrænu vegferð með góðum árangri.

Skilgreina markmið

Eins og með allt þá skiptir máli að vera búin að skilgreina hvers vegna fyrirtækið ætlar að fara í tiltekna vegferð og hvaða markmiðum eigi að ná. Hægt er að setja skammtíma sem og langtíma markmið, allt í takti við stefnu fyrirtækisins. Markmiðasetning hjálpar mikið þegar kemur að því að forgangsraða verkefnum.

Greina tækifæri og lista upp verkefni

Fyrirtæki standa oft frammi fyrir því að vita ekki hvar þau eigi að hefja sínu stafrænu vegferð. Það getur verið góður upphafspunktur að lista upp öll þau verkefni sem vitað er að þarf á einhverjum tímapunkti að framkvæma. Í framhaldi gæti verið ákjósanlegt að horfa í kringum sig og skoða t.d. hvað samkeppnisaðilar eru að gera, erlend og innlend fyrirtæki á svipaðri vegferð og tala við sérfræðinga sem sérhæfa sig í slíkum verkefnum til að koma auga á tækifæri.

Forgangsröðun verkefna

Þegar búið er að setja saman verkefnalista þá skiptir miklu máli að forgangsraða þessum verkefnum þannig að það styðji stefnu og markmið fyrirtækisins á sem bestan hátt. Við ráðleggjum fyrirtækjum að forgangsraða verkefnum út frá mælanlegum þáttum en ekki huglægum þáttum eins og vill oft verða. Aðeins þannig er hægt að tryggja það að farið sé í réttu verkefnin á réttum tíma.

Framkvæmd verkefna

Þegar ákveðið hefur verið hvaða verkefni á að vinna skiptir miklu máli að skilgreina með hvaða fyrirkomulagi skuli vinna verkefnið. Það eru til margar tegundir af verkefnafyrirkomulagi sem að öll hafa sína kosti og galla en það er okkar reynsla að verkefni sem hafa skýrt stjórnskipulag og fyrirframskilgreint verkefnafyrirkomulag gangi hraðar og betur en önnur verkefni.

Líkt og áður hefur verið komið inn á eru verkefnin misjöfn og fyrirtæki misvel í stakk búin til þess að fara sjálf í þessa vinnu. Ráðgjafar Júní eru faglegir og beita virkri stýringu við stefnumótun, við erum með mikla reynslu í framkvæmd og innleiðingu nýrra lausna hjá fyrirtækjum. Við sérhæfum okkur í að greina tækifæri, móta skilvirkni og hámarka útkomu fyrirtækja. Við kappkostum líka við að einfalda lífið fyrir fólk, fyrirtæki og samfélagið með fögrum stafrænum lausnum.

Höfundur er Linda Lyngmo, ráðgjafi hjá Júní og er með víðtæka reynslu að stafrænni umbreytingu og stýringu stafrænna verkefna.