Skip to main content

Átta spurningar sem allir stjórnendur og stafrænir leiðtogar ættu að spyrja sig.


Hólmfríður Rut Einarsdóttir, vörustjóri hjá Advania, og Valeria Rivina forstöðukona veflausna Advania, skrifa:


Flestum okkar er orðið ljóst að með tækninni getum við gert ótrúlega hluti og náð miklum árangri. Hagnýting tækninnar gerir okkur kleift að fara á áður óþekktar slóðir, skapa ný tækifæri, bregðast við áskorunum á árangursríkan hátt og ná samkeppnisforskoti. Við sjáum þetta gerast á hverjum einasta degi.

Fyrirtæki og stofnanir sem stuðla að verðmætasköpun framtíðarinnar eru þau sem hafa náð árangri á sinni stafrænu vegferð. Stafræn vegferð er ekki bara falleg glærukynning, ný heimasíða eða spjallmenni. Stafræn vegferð snýst um fólk og innviði. Starfsfólk þessara fyrirtækja og stofnana þarf að hafa þekkingu og færni til þess að sjá og skapa ný tækifæri. Innviðir þessara sömu fyrirtækja og stofnana þurfa að vera nógu sterkir og öruggir til þess að geta borið allar þær tæknilausnir sem þau hyggjast nýta við sína verðmætasköpun.

Meirihluti stjórnenda vill ná meiri árangri og vera snjallari með notkun tækninnar. Hvort sem það er í einkalífi eða starfi. Mörgum finnst það hægara sagt en gert og vita ekki hvar á að byrja eða hver næstu skref eru eftir af farið er af stað. Hér eru átta spurningar sem allir stjórnendur og stafrænir leiðtogar ættu að spyrja sig. Svörin geta nýst sem leiðarvísir á stafrænni vegferð og auðveldað að ná samkeppnisforskoti.

Getum við náð meiri árangri með því að nýta tæknilausnir?

Ef heimsfaraldurinn hefur sýnt okkur eitthvað, þá er það aðlögunarhæfni fólks og fegurðin við tæknina. Við þurftum öll að læra á nýjar samskiptaleiðir, vera skapandi og frumleg við að leysa þær áskoranir sem takmarkanir fela í sér, læra að vinna heima og að nýta ýmis ný tól til að besta vinnuumhverfi okkar. Það er óhætt að segja að nýr kafli hafi byrjað hjá flestum fyrirtækjum og aldrei áður hefur verið betri grundvöllur til þess að drífa áfram stafræna umbreytingu en einmitt núna.

Fyrirtæki ættu að nýta tækifærið á meðan starfsfólkið er opnara gagnvart breytingum og minna hrætt við tækinýjungar. Nú er enn stærra tækifæri til að greina hvernig hægt er að straumlínulaga reksturinn, tryggja öryggi innviða og innleiða stafræna stefnu. Fáðu samstarfsfólkið með þér í lið við að koma auga á tækifæri til að nýta krafta tækninnar. Fáðu þau þannig til að taka þátt í að umbreyta fyrirtækinu í stað þess að fara í vörn. Mundu að fólkið er lykillinn að velgengni í stafrænni umbyltingu. Nokkur dæmi um spurningar sem hægt er að leggja fyrir fólk til þess að koma boltanum af stað og opna á umræðuna:

Hversu miklum tíma verð þú í endurtekin verkefni í hverri viku?

Hvaða verkefni í þínu starfi finnst þér algerlega tilgangslaus og ekki skapa neitt virði fyrir fyrirtækið?

Hversu mikill tími sparast ef hagsmunaaðilar gætu séð stöðu verkefna í stafrænni lausn og þú þyrftir ekki lengur að svara tölvupóstum um efnið?

Eru kerfin og stafrænu tólin samþætt og tala saman eða er gögnum halað niður úr einu kerfi og hlaðið inn í annað?


Eigum við gögn sem ekki eru nýtt til að skapa virði fyrir fyrirtækið?

Öll fyrirtæki búa yfir gögnum. Fæst fyrirtæki fullnýta þau við sína verðmætasköpun. Í mörgum tilfellum eru gögnin illa aðgengileg og í sumum tilfellum er ekki alveg á hreinu hvaða gögn eru til og hvar þau er að finna. Þarna leynast oft fjölmörg tækifæri og geta fyrirtæki orðið af miklum fjármunum ef þessi auðlind er ekki nýtt til fulls. Með því að byggja ákvarðanir á gögnum frekar en tilfinningum, má auka líkur á því að ákvarðanatakan verði árangursrík. Starfsfólk fyrirtækja ætti að hafa greiðan aðgang að öllum þeim gögnum sem þau þurfa til þess að sjá og skapa ný tækifæri fyrir fyrirtækið og taka réttar ákvarðanir á réttum tíma.

Sem dæmi ættu gögnin að hjálpa þínu fyrirtæki að:

Draga fram upplýsingar sem hjálpa til við ákvarðanatöku

Spá fyrir um ókomna atburði, byggt á sögulegum gögnum

Hámarka framleiðni og afkastagetu

Halda úti góðum markaðsherferðum sem höfða til réttra markhópa

Koma auga á tímafrek verkefni og tækifæri til sjálfvirknivæðingar

Erum við vel varin fyrir netárásum?

Netglæpir er vaxandi iðnaður og kominn til að vera. Það er ekki lengur spurning um hvort heldur hvernig fyrirtæki og stofnanir verja sig fyrir þeim. Að verða fyrir netárás hefur ekki aðeins áhrif á efnahagsreikninginn heldur líka á orðsporið, sérstaklega ef fyrirtækið ákveður að spara í forvörnum. Það getur tekið mörg ár að byggja traustið upp aftur, ef það á annað borð tekst.

Fyrirtæki og stofnanir ættu alltaf að leita ráðgjafar hjá sérfræðingum á þessu sviði og framkvæma reglulegar úttektir til þess að tryggja hámarks öryggi gagna þeirra. Einnig er mjög mikilvægt að innan hvers fyrirtækis sé starfandi öryggisfulltrúi sem ber ábyrgð á að setja öryggisferla og fylgja þeim eftir. Góð og regluleg fræðsla starfsfólks um stafrænt öryggi, marglaga auðkenningar og lykilorðaþjónustur ætti að vera partur af öryggisstefnu allra fyrirtækja.

Erum við að nýta allar þær tæknilausnir sem við ættum að nýta?

Á hverju ári gefa þekkt tímarit út lista yfir heitustu strauma og nýjustu tískuorð í tækni sem vert er að fylgjast með. Í stafræna hagkerfinu er nú þegar að finna fyrirbæri eins og skýjalausnir, IOT (Internet of Things), VR (Virtual reality), AR (Artificial intelligence), stafræna tvíbura (Digital Twins), kubbakeðju (Blockchain), Big Data, NFTs (Non-fungible tokens) og svona mætti lengi telja. Sum fyrirbæri ná aðeins til þeirra sem starfa á mjög sérhæfðum mörkuðum og í hátækni, á meðan önnur fyrirbæri snerta flesta vinnustaði með einum eða öðrum hætti. Stafræn umbreyting (Digital transformation) er vissulega eitt af þessum fyrirbærum.

Það er mjög freistandi að loka augunum og kjósa að kynna sér hlutina þegar meiri reynsla er komin á þá. Mörg fyrirtæki velja að hlaupa ekki á eftir nýjungum heldur fylgja öðrum. Með þeim hugsunarhætti eru fyrirtæki og stofnanir oft að loka augunum fyrir þeim tækifærum sem gætu leynst í þessum tækninýjungum og misst þannig sitt samkeppnisforskot. Við þekkjum öll söguna af stórveldinu Kodak og hvernig þeirra vantrú á stafrænum myndum varð þeim að falli. Að fylgjast með nýjum straumum og stefnum í tækni og fjárfesta í rannsóknum og þróun getur skipt sköpum fyrir þitt fyrirtæki.

Færum við viðskiptavinum bestu mögulegu lausnina?

Tæknin býður sífellt upp á ný tækifæri og leiðir til þess að bjóða fram okkar þjónustu og vörur. Viðskiptmódelin breytast eftir því sem kröfur markaðarins og hegðun neytenda breytast. Fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera stöðugt á tánum, endurskoða framboð sitt reglulega og vera í stöðugri þróun og nýsköpun. Aðeins þannig geta þau tryggt sér samkeppnisforskot til lengri tíma.

Góð leið til þess að stuðla að nýsköpun hjá starfsfólki og kenna því að koma auga á tækifærin, er að hvetja þau til þess að setja sig í spor viðskiptavinarins og sjá tækifærin frá hans sjónarhorni. Greina hvaða vandamál viðskiptavinurinn glímir við og hvaða þörf er á markaðnum hverju sinni. Byrja með tómt blað og vinna sig út frá því.

Erum við nógu sýnileg á vefnum eða getum við gert betur svo fleiri uppgötvi okkur?

Meirihluti mannkyns notar internetið. Baráttan um athygli hefur aldrei verið harðari. Þú þarft ekki að ná til allra til að ná árangri, þú þarft bara að ná til rétta hópsins. Með stafrænni markaðssetningu er hægt að ná miklum árangri á þessu sviði og fá fleiri til að nota stafrænar lausnir.

Stafræn markaðssetning gengur út á það að safna gögnum um þá sem nota stafrænar lausnir þíns fyrirtækis, nýta þau svo með hjálp tækninnar til þess að koma réttum skilaboðum á réttan hóp á réttum tíma á réttum stað. Safna gögnum um þann árangur, greina, ítra, læra, aðlaga og byrja aftur. Sem dæmi um aðgerðir má nefna leitarvélabestun, auglýsingar á samfélagsmiðlum, markpóstar o.fl. Kosturinn við stafræna markaðssetningu er að allar aðgerðir eru mælanlegar og rekjanlegar, þ.e.a.s. ef herferðirnar eru rétt upp settar og gögnin úr herferðunum nýtt til þess að besta aðgerðir.

Höfum við næga þekkingu og færni í breytingastjórnun?

Hvort sem fyrirtæki kjósa að feta sína stafrænu vegferð í stuttum, einföldum skrefum eða fara í hana af fullum krafti, hefur enginn efni á að gera ekki neitt. Þau sem hafa frumkvæðið verða betur í stakk búnir til að ná árangri. Þau sem kjósa að taka ekki þátt, lifa það ekki af.

Breytingar eru sjaldnast auðveldar, sérstaklega þegar þær snerta fólk. Það hefur því aldrei verið mikilvægara að stjórnendur og stafrænir leiðtogar búi yfir færni í breytingastjórnun. Lykillinn að árangri er að fá samstarfsfólkið með sér í lið og fá þau til að taka þátt og jafnvel eiga frumkvæðið að breytingunum. Með því að hafa skýra stefnu og miðla til fólks hvaða markmiðum fyrirtækið vill ná og af hverju, næst samheldni, skilningur og liðsandi innan teymisins. Enn árangursríkara er að hafa starfsfólkið með í að setja stefnuna og markmiðin sem fyrirtækið ætlar að ná.

Hvar finnum við lausnir sem eru bæði grænar og arðbærar?

Sjálfbærni og stafræn umbreyting eru ekki tvö aðskilin fyrirbæri. Græn umskipti og stafræn þróun spila lykilhlutverk í því að byggja upp sjálfbær samfélög. Sífellt meiri kröfur eru gerðar til reksturs fyrirtækja, samfélagslega ábyrgð og fótspor þeirra í samfélaginu. Með því að leysa úr læðingi hugvit og styðja við nýsköpun náum við að auka hagkvæmni og minnka kolefnisspor fyrirtækja og stofnanna.

Stafræn umbreyting færir okkur svokölluð græn viðskiptamódel. Lykilorðin í grænum viðskiptamódelum eru: hagkvæmni, sjálfvirkni, hringrásarhagkerfi, þjónustuframboð og grænn hagvöxtur. Við sjáum það líka að hjá mörgum fyrirtækjum sem eru leiðandi í þessum málaflokkum, hefur sérstakt hlutverk verið búið til og starfsfólk ráðið til að sinna þessu í fullu starfi.

Fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem eru að stíga sín fyrstu skref , eru hér nokkrar spurningar sem gott er að velta fyrir sér áður en hafist er handa:

Hvar á að byrja þegar kemur að grænu viðskiptamódeli?

Hvernig á að takast á við allt það sem fylgir kröfum um skjöl og vottanir?

Hvernig á að forðast grænþvott?

Hvernig er best að samþætta sjálfbærni inn í reksturinn?

Opinn veffundur um stafræna leiðtoga

Advania efnir til opins veffundar þann 25. janúar  um verkefni, áskoranir, ávinning af starfi stafrænna leiðtoga í atvinnulífinu. Rætt verður um hvernig nýta megi krafta stafrænna leiðtoga og virkja hlutverk þeirra í kjarnastarfsemi fyrirtækja. Endilega skráðu þig á fundinn, það kostar ekkert að fylgjast með!

Við getum hjálpað

Hjá Advania starfar fjölbreyttur hópur fólks sem sérhæfir sig í að besta innviði, tryggja að þeir séu nægilega sterkir og öruggir til að standast þau flottu stafrænu markmið sem sett hafa verið. Það er staðreynd að tækniinnviðir og umhverfi fyrirtækja er aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn. Innan Advania starfa einnig sérfræðingar í að sníða nýjar flottar framendalausnir sem tala við þín helstu kerfi og hafa það að markmiði að besta upplifun viðskiptavina og gefa þínu fyrirtæki tækifæri til að skapa sér samkeppnisforskot.

Hægt er að bóka tíma í spjall án allra skuldbindinga. Við hjálpum þér að meta hvar þitt fyrirtæki stendur í dag og hvaða skref eigi að taka næst.