Skip to main content

Stafræna hæfnihjólið er verkfæri sem VR býður félagsmönnum sínum svo þeir geti undirbúið sig til að takast á við örar tæknibreytingar í samfélaginu. VR hefur einnig tekið höndum saman við Samtök verslunar og þjónustu og Háskólann í Reykjavík um að setja á stafrænt hæfnisetur til þess að styðja enn frekar við bakið á félagsmönnum sínum.

Markmið setursins er að auka vitund einstaklinga um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar á störf og vinnumarkaðinn, auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og veita stjórnendum verkfæri til þess að innleiða stafræna tækni og fræða og þjálfa starfsfólk í notkun hennar.
Stafræna hæfnihjólið varð aðgengilegt í október 2019, þátttakendum að kostnaðarlausu. Um er að ræða rafrænt sjálfsmatspróf sem byggir á skilgreindum grunnþáttum stafrænnar hæfni frá DIGCOMP sem er
eitt af rannsóknarverkefnum Evrópusambandsins í tengslum við stafræna þróun. Danska fyrirtækið Center for digital dannelse þróaði hjólið út frá skilgreindum hæfniþáttum DIGCOMP og er hægt að svara sjálfsmatinu á ensku, dönsku, íslensku og spænsku. Niðurstöður sjálfsmatsprófsins eru birtar í geislariti og gefa þátttakandanum hugmyndir um hvar hann stendur sig vel í stafrænni hæfni og á hvaða sviði hann má bæta sig og bendir jafnframt á hvaða leiðir og æfingar eru mögulegar til úrbóta. Niðurstöðurnar sýna einnig hvar hæfni þátttakandans liggur miðað við eðlileg mörk og í samanburði við aðra innan sama starfsviðs. Að lokum er þátttakandinn staðsettur á sex stiga „píramída” skala út frá heildarniðurstöðu sinni. Skalinn er stafrænn byrjandi, stafrænn nemandi, stafrænn bachelor, stafrænn kandídat, stafrænn lektor og stafrænn prófessor.
Á því rúma eina ári sem íslenska þýðingin hefur verið aðgengileg hafa rúmlega fimm þúsund manns á öllum aldri metið sjálfa sig í Stafræna hæfnihjólinu. Hlutfall kynja meðal þátttakenda er nokkuð jafnt innan aldurshópanna og eykst þátttakan með auknum lífaldri og nær hámarki í aldurshópnum 45-54 ára.

Niðurstöður þeirra rúmlega fimm þúsund sem þreytt hafa sjálfsmatsprófið eru hér teknar saman í eitt geislarit. Geislaritið birtir niðurstöður í 16 mismunandi grunnþáttum sem dregnir eru saman til grundvallar í fjóra meginþætti stafrænnar hæfni sem eru; Upplýsingar, Samskipti, Framkvæmd og Öryggi. Meginþættirnir fjórir eru metnir sérstaklega og saman reiknast þeir í eina heildarprósentutölu í stafrænni hæfni. Heildarstigatala þeirra rúmlega fimm þúsund sem lokið hafa sjálfsmatsprófinu reiknast sem 75% stafræn hæfni.
Heildarstigatalan skilgreinir hópinn sem Stafrænan kandídat, eða með þá hæfni að geta rökrætt og sett fram spurningar um stafræn hugtök.
Stafrænn kandídat hefur sjálfstæði til að prófa sig áfram með nýrri tækni og beita rökhugsun við greiningu og lausn vandamála. Að sama skapi getur hann brotið stafrænt fyrirbæri í smærri hluta og unnið sig í gegnum þá skref fyrir skref.
Ef hópurinn er skoðaður nánar kemur í ljós að talsverð dreifing er á því í hvaða flokk þátttakendur falla. Út frá heildarfjölda þátttakenda falla 28,8% í flokk Stafræns kandídats og 71,3% í aðra flokka sbr. mynd.
Þegar rýnt er nánar í geislaritið hér að ofan má draga fram þrjá grunnþætti af þeim 16 sem koma lakast út fyrir hópinn. Það eru grunnþættirnir; sjálfvirknivæðing, framkvæmd og gagnavinnsla og gagnageymsla.
Ástæða þess að þeir eru dregnir sérstaklega fram hér er sú að það eru þeir þættir sem hópurinn ætti að vinna helst með til að bæta hæfni sína.
Sjálfvirknivæðing er sá grunnþáttur þar sem fólk skorar lægst. Sjálfvirknivæðingin skilgreinir getuna til þess að gera breytingar á eða þróa stafrænar lausnir sem geta leyst verkefni á sjálfvirkan hátt, að hluta til eða að öllu leyti. Dæmi um hæfni í sjálfvirknivæðingu er skilningur á því hvenær hentar að tileinka sér, nýta og jafnvel skipta út lausnum.
Að þekkja til ferlisins hvernig hugmynd er þróuð gegnum forritun og verður að fullbúnum hugbúnaði og þekking og notkun á ýmsum gagnagrunnsforritum til geymslu á gögnum.
Í grunnþættinum framkvæmd og gagnavinnsla liggur getan til að búa til, setja saman og breyta stafrænu efni á mismunandi sniði, s.s. myndum, texta, upptökum eða hljóði í mismunandi forritum. Breyta sniði og vista á hentugasta sniði hverju sinni og sýndur áhugi á því að búa til efni sem er stafrænt eins og mynd, tónlist eða myndskeið.
Gagnageymsla er þriðji grunnþátturinn sem vert er rýna nánar í. Þar liggur getan til að skipuleggja og geyma stafrænt efni þannig að það haldist öruggt en aðgengilegt.
Þættir sem hafa áhrif á hæfni eru þekking, leikni og hugarfar. Einn mikilvægasti þátturinn í þróun á stafrænni hæfni einstaklinga er að vera forvitin/n um tækni og nýjar stafrænar lausnir. Einnig er eiginleikinn að vera tilbúin/n að takast á við breytingar mikilvægur. Að sætta sig við að hlutir muni breytast og þora að horfa á hlutina út frá nýju sjónarhorni og að undirbúa sjálfa/n sig í að vilja prófa.
Ljóst er að engin ein aðgerð eða eitt verkefni mun skipta öllu máli í þeirri þróun að auka stafræna hæfni heillrar þjóðar. Það eru miklu heldur sameinaðir kraftar, hvatning, áskorun og stuðningur margra við sama markmið sem mun leiða af sér aukna meðvitund um stafræna hæfni einstaklinga og aukinn hvata þeirra til þess að vera virkari þátttakandi í nútímasamfélagi. Stafræna hæfnihjólið er því einungis hluti af stórri heild í þeirri vegferð að auka starfræna hæfni, sett fram til að einstaklingar geti metið sína styrkleika og veikleika og unnið áfram með þá. Persónubundin kortlagning á stafrænni hæfni gerir einstaklingnum kleift að gera sér betur grein fyrir hvernig hann sem partur af stærri heild getur bætt sína stafrænu hæfni. Það er engin ein lausn í því að auka stafræna hæfni einstaklinga heldur þarf hver og einn að finna sína leið, en til þess þarf einstaklingurinn fyrst að hafa áhuga á því. Ýmis verkfæri eru til staðar og finna þarf hvað
hentar hverjum best á hverjum tíma.
Dæmi um verkfæri er námskeiðið Starfsmaður 21. aldarinnar sem Mímir hefur þróað og er félagsmönnum að kostnaðarlausu og frí kennslumyndbönd sem unnin eru út frá grunni Stafræna hæfnihjólsins sem Fræðslusetrið Starfsmennt býður upp á.

Grein er fengin úr 2. tbl. VR 2021