Skip to main content

Hvernig get ég aðlagað mig í stafrænum heimi?

Mikið hefur verið rætt um fjórðu iðnbyltinguna og allar þær breytingar sem framundan eru. Talað er um sjálfvirknivæðingu, róbotavæðingu fyrirtækja og stafræna umbreytingu.1
Það þarf ekki annað en að fara í næstu búð og sjá að búið er að sjálfvirknivæða kassana þar sem viðskiptavinur sér sjálfur um afgreiðsluna. Ekki þarf að undrast að fólk velti því fyrir sér hvaða áhrif þessi þróun gæti haft, sérstaklega
á þeirra eigin störf. Munu störfin hverfa? Verða heilu starfsstéttirnar óþarfar? Vissulega má velta fyrir sér slíkum hlutum, en ef rétt er haldið á spöðunum getur á næstu árum átt sér stað mjög jákvæð þróun þar sem störf verða betri, skemmtilegri – og betur launuð. Þá geta menn velt fyrir sér mun áhugaverðari spurningum eins og til dæmis:
„Hvernig get ég nýtt þau tækifæri sem felast í breytingunum til þess að efla mig í starfi?”

HVAÐ ER STAFRÆN ÞRÓUN?

Stafræn þróun felst í því að nýta stafræna tækni, gögn og tengingar sem leiða til nýrrar eða breyttrar virkni. Í einfaldara máli má segja að við séum að nota tæknina til að vinna betur. Slík breyting felst í að breyta verklagi og vinnuferlum innan fyrirtækja þannig að gögn eru stafræn og rauntíma hugbúnaður notaður við að koma hlutum í verk.
Aukin sjálfvirknivæðing þar sem viðskiptavinir nota vef og öpp sem snertiflöt við fyrirtækið, jafnvel þjónustufyrirtæki eins dekkjaverkstæði, fatabúðir eða veitingastaði. Þegar starfsemi breytist í gögn og hugbúnað opnast nýja leiðir, skilvirkni eykst, framleiðniaukning á sér stað og yfirsýn verður betri. Þetta gengur ekki út á að eitthvað sé gert
stafrænt sem áður var það ekki. Þetta er spurning um að gera hlutina betur vegna aukinna möguleika með nýrri tækni.

En þar sem þessar breytingar geta verið gríðarlega miklar er stafræn umbreyting líka að miklu leyti spurning um viðhorf. Að fólk sé tilbúið að horfa á hlutina með nýjum augum, tilbúið í aðlögun og breytingar.
Oft er talað um að DNA fyrirtækisins þurfi að vera stafrænt. Það þýðir ekki að hjartað og sálin þurfi að verða að tölvum og vélum, heldur þýðir það að fólkið hefur viðhorf og hugarfar sem fagnar því að þróast stöðugt, og að nýta tæknina þar sem hún kemur að gagni.

Fyrir starfsfólk getur þetta falið í sér tækifæri til að fjarlægja verkefni sem eru rútínubundin, seinleg eða þreytandi og geta þ.a.l. notað tímann í meira krefjandi verkefni þar sem meira reynir á dómgreind, skapandi hugsun og aðlögunarhæfni. Þar hafa manneskjur enn forskot á tæknina og það mun ekki breytast í bráð.
Breytingar á vinnumarkaði hafa alltaf átt sér stað. Allt frá því í fyrstu iðnbyltingunni þegar verksmiðjur drógu fólkið úr sveitinni og inn í borgir, til snjallsímans sem færði okkur heiminn í vasann. Tæknibreytingar geta haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Sem dæmi má nefna borðtölvuna. Þegar skoðað
var hvaða störf í Bandaríkjunum hurfu vegna tölvutækninnar og hver urðu til frá 1980 til 2014, kom í ljós að hundruð þúsund bókhaldara, skrifstofufólks og einkaritarara misstu vinnuna. Alls hurfu um 3,5 milljón störf. Á móti urðu hinsvegar til 19 milljón störf við tölvur á sama tíma, með tilheyrandi framleiðniaukningu.2
Auðvitað fylgir slíkum breytingum umrót í þjóðfélaginu. Það fólk sem sinnti störfunum sem hurfu hafði ekki sjálfkrafa hæfni í störfin sem urðu til. En það er nokkuð sem hægt er að takast á við.

Fyrrnefnd dæmi geta skapað hræðslu. Einkaritarar fóru almennt ekki að forrita. En það sem við hinsvegar höfum í íslensku nútímaumhverfi eru óteljandi tækifæri. Það er ekkert sem segir að íslenskir einkaritarar geti ekki farið að forrita. Einnig gætu þeir þróað hæfni sína í ný störf sem ekki voru til fyrir nokkrum árum síðan, t.d. sem áhrifavaldar
á samfélagsmiðlum, drónaflugmenn eða gagnagreinar. Fjöldi nýrra starfa er einnig að myndast í tengslum við hugbúnað, gervigreind og bálkakeðju. Þá er líklegt að með aukinni sjálfvirknivæðingu verði til störf sem eru mannlegri, ganga út á að veita félagsskap og spjalla við fólk. Fyrirtæki geta veitt persónulegri þjónustu og upplifun því
tæknin leysir mannshöndina af hólmi og veitir starfsfólki meira rými til þjónustu við viðskiptavininn – og það skapar verðmæti. Hvers kyns þjálfarar eru að koma fram. Stílistar sem velja föt, viðskiptaþjálfarar sem aðstoða framkvæmdastjóra og rafíþróttaþjálfarar eru bara nokkur dæmi um ný störf.
Við sem búum hér á Íslandi höfum aðgang að sí- og endurmenntunarkerfi sem gerir okkur kleift að tileinka okkur nýja færni, við höfum fjárhagslegan stuðning í formi starfsmenntasjóða. Auk þess höfum við í sífellt meira mæli fyrirtæki með vel upplýsta stjórnendur sem gera sér grein fyrir mikilvægi sí- og endurmenntunar starfsfólks – og
sem þurfa þessa nýju hæfni og hafa því hvatann til að styðja fólk við að tileinka sér hana.
Það sem við þurfum fyrst og fremst að efla er framfarahugarfar (e. growth mindset). Við þurfum að temja okkur þá hugsun að allt breytist og því beri að fagna. Það feli í sér spennandi áskoranir og tækifæri, í stað þess að hræðast breytingarnar. Að það sé spennandi að læra nýja hluti og tileinka sér nýja hæfni. Það verður einn verðmætasti
eiginleiki starfsmanns framtíðarinnar.

VINNA OG NÁM ER ÆVILANGT VERKEFNI

Viðhorf til náms er að breytast frá því sem áður var. Áður var hugsað um nám þannig að því væri lokið um 20-25 ára aldur og þá væri einstaklingurinn búinn að undirbúa sig undir sitt framtíðarstarf. Við tók seta á stöku sí- og endurmenntunarnámskeiði á nokkurra ára fresti. Eins og könnun meðal félagsmanna VR frá 2020 sýndi er um
það bil helmingur félagsfólks þegar búinn að bæta við sig þekkingu til að mæta tæknibreytingum og stafrænni þróun á vinnumarkaði.
Nýtt viðhorf til náms felst í því að nám er ævilangt verkefni og rennur saman við starfið sjálft. Að læra nýja hluti sem gagnast til verkefna í vinnunni ætti að vera hluti af starfinu – spennandi hluti af því. Þrátt fyrir þessa vitneskju, reynist mörgum erfitt að gefa sér tíma til þess að afla sér nýrrar þekkingar í vinnunni og ef hvatning á vinnustað er ekki
fyrir hendi eru minni líkur á því að einstaklingar setji það í forgang að læra nýja hluti.
Fyrirtækjamenning hefur mikil áhrif á viðhorf starfsfólks til þess að læra, skrá sig á námskeið eða gefa sér tíma til þess að afla sér nýrrar þekkingar t.d. í sjálfsnámi. Það er mikilvægt að starfsfólk skynji velvild gagnvart því að auka þekkingu sína um starftengd mál á vinnutíma.
Sýnileg fræðslustefna og fræðsluáætlun er dæmi um skýr skilaboð frá fyrirtækinu um slíkt. Fyrirtæki geta nýtt sér Fræðslustjóra að láni (www.attin.is/fraedslustjori-ad-lani) í boði starfsmenntasjóðanna til þess að koma fræðslumálum sínum í góðan farveg. Allt þetta er ástæðan fyrir því að VR hefur tekið höndum saman við SVÞ og HR og vinnur nú
að því að koma á samstarfsvettvangi um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Ef þú vilt kynna þér verkefnið, kíktu þá á stafraent.is.
Til að við getum leyst úr læðingi þau tækifæri sem stafræn umbreyting getur falið í sér, þurfum við að efla þetta stafræna hugarfar og stafræna hæfni, svo að fyrirtækin geti skapað meira spennandi störf fyrir starfsfólk sitt – og við getum öll notið okkar betur í vinnunni.

SAMVINNA ER LYKILLINN AÐ FARSÆLLI FRAMTÍÐ

Vinnumarkaðurinn hefur alltaf verið í þróun og störfin breyst. Nú og um ókomna framtíð munu breytingar eiga sér stað á meiri hraða en við höfum vanist. Hver og einn þarf að huga að eigin verkefnum og yfirvofandi breytingum á sínu starfi. Það er samvinnuverkefni einstaklinga og atvinnurekanda að nýta þau tækifæri sem ný tækni hefur í för með sér. Ný tækni eykur atvinnutækifæri bæði einstaklinga og fyrirtækja. Fyrirtæki bera mikla ábyrgð á því að bjóða starfsfólki sínu upp á fræðslu um breytingar á starfsemi sinni og að stuðla að því að einstaklingar sem hjá því starfa fái tækifæri til þess að uppfæra þekkingu sína og byggja áfram á þeirri þekkingu sem þeir búa þegar yfir.
Við lítum framtíðina björtum augum. Hjálpumst að við að koma auga á tækifærin í breytingum í tækni og viðskiptaumhverfi. Mótum framtíðina saman

Hvað er hægt að gera til þess að aðlagast betur stafrænum heimi?

• Komast að því hver er þín stafræna hæfni á stafraenhaefni.is og bera saman við aðra í sömu starfsgrein.
Stafræn hæfni snýst fyrst og fremst um að geta beitt viðeigandi þekkingu og færni, en einnig að vera
reiðubúin/n að endurskoða viðhorf sín og vera tilbúin/n að prófa nýja tækni – framfarahugarfar.
• Taka gervigreindarnámskeiðið Elements of AI í boði stjórnvalda sem er frítt og góð leið til að fá betri skilning á grundvallaratriðum gervigreindar t.d. hvaða áhrif gæti gervigreind haft á starf þitt eða daglegt líf,
hvernig er gervigreind búin til, hvert stefnir í þróun gervigreindar og hvaða áhrif getur hún haft á tilveru
okkar á næstu árum? Við hvetjum alla til að kynna sér námskeiðið á elementsofai.is
• Huga að eigin starfsþróun. Virk starfsþróun er ekki einhliða, hún fer alltaf fram í samtali einstaklings og
yfirmanns. Hægt er að hafa áhrif á þróun starfs með því t.d. að rýna í starfið og skoða markvisst hvernig
það muni breytast. Hvaða verkefnum er ég að sinna sem tæknin gæti séð um og þannig veitt mér meiri
tíma til að sinna verðmætari verkefnum? Hvaða verkefnum er ég að sinna sem eru spennandi, krefjandi
og kalla á mannlega eiginleika eins og sköpun og samskipti? Vægi slíkra verkefni mun aukast og
tækifæri felast í því að efla hæfni til þeirra verka. Hægt er að lesa meira á vr.is/starfsthroun
• Að leggja stund að virkt nám (e. active learning) og skoða hvaða námsaðferðir henta og virka vel fyrir þig.
Það er mikilvæg hæfni samkvæmt World Economic Forum fyrir árið 2022 (sjá mynd á fyrri opnu). Aukin
áhersla er lögð á að hver og einn hanni sína eigin fræðslu og sé sífellt að leita sér nýrrar þekkingar. Þetta
felur í sér að vita hvar er hægt að finna nám við hæfi.
• Leita til náms- og starfsráðgjafa en þeir veita ráðgjöf um áhugasvið, styrkleika, atvinnuleit, skipulag,
markmið og tímastjórnun ásamt því að leiðbeina og veita upplýsingar um nám og störf sem í boði eru
hverju sinni. VR býður félagsmönnum sínum upp á náms- og starfsráðgjöf, sjá nánar vr.is/starfsthroun
• Stafrænn hæfniklasi er nýr vettvangur sem unnið er að, þar sem verður í framtíðinni hægt að leita upplýsinga um hvers kyns fræðslu og ráðgjöf er varðar stafræna umbreytingu í fyrirtækjum

Greinina skrifuðu: Þóranna K. Jónsdóttir, Leiðtogi markaðsmála hjá Byko. Ólafur Andri Ragnarsson,
aðjúnkt hjá Háskólanum í Reykjavík. Sólveig L. Snæbjörnsdóttir, verkefnastjórnun hjá VR.