Viðhorf félagsmanna VR og stjórnenda í fyrirtækjum til fjórðu iðnbyltingarinnar Framtíðarnefnd VR stóð nýlega fyrir tveimur könnunum um viðhorf til breytinga á störfum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Önnur könnunin var send félagsmönnum VR og hin á stjórnendur. Það er sammerkt með svörum beggja hópa að þeir eru mjög meðvitaðir um að breytingar verði á næstu 3-5 árum vegna tæknibreytinga og stafrænnar þróunar. Kannanirnar voru gerðar í júní – ágúst og sá MMR um framkvæmdina og úrvinnslu niðurstaðna. Svörun meðal félagsmanna var 29% eða 1.869 svör. Mun færri svöruðu könnuninni meðal stjórnenda eða 325 og er mikilvægt að hafa það í huga þegar niðurstöður eru skoðaðar.
Það er stefna VR að félagsmönnum sé tryggt öruggt atvinnuumhverfi í framtíðinni og hefur það verið töluvert til umræðu í Framtíðarnefnd félagsins. Nefndin hefur það meðal annars að markmiði að fylgjast vel með breytingum á vinnumarkaði til þess að VR geti sinnt hlutverki sínu sem er fyrst og fremst að vinna að bættum kjörum og auknum
réttindum félagsmanna.
Mikill meirihluti svarenda könnunarinnar meðal stjórnenda telur að breytingarnar verði miklar á næstu fimm árum, en rétt innan við helmingur félagsmanna telur að breytingar verði miklar á næstu þremur árum. Niðurstöður önnunarinnar meðal stjórnenda benda til þess að þeir líti yfirvofandi breytingar jákvæðum augum, 58% telja ekki að fjórða iðnbyltingin muni gera fyrirtækjum erfitt fyrir að fylgja eftir tæknibreytingum og 74% eru sammála því að hún feli í sér mikil tækifæri.
Meirihluti félagsmanna eða 63% virðist ekki hafa miklar áhyggjur af áhrifum tæknibreytinga á störf sín en svipað hlutfall telur engu að síður mikilvægt að bæta við sig þekkingu í ljósi stafrænnar þróunar á vinnumarkaði. 47% hafa þegar bætt við sig þekkingu sem bendir til þess að félagsmenn VR séu margir hverjir farnir að bæta við sig þeirri þekkingu sem þeir sjá fyrir sér að störf þeirra kalli á á næstu árum. Það er samhljómur í svörum félagsmanna og stjórnenda þegar kemur að þörf á nýrri þekkingu og mikilvægi þess að auka hana. 77% svarenda í hópi stjórnenda segja að þörf sé á nýrri þekkingu og svipað hlutfall að áhersla verði lögð á að þjálfa starfsmenn til þess að mæta þessari þörf.
Mikill meirihluti svarenda könnunarinnar meðal stjórnenda telur að breytingarnar verði miklar á næstu fimm árum, en rétt innan við helmingur félagsmanna telur að breytingar verði miklar á næstu þremur árum.
Það er stefna VR að einstaklingar á vinnumarkaði fái aukin tækifæri og hvata til þess að þróa færni sína og læra nýja með sí- og endurmenntun. Svör stjórnenda benda til þess að vilji sé fyrir því að veita starfsfólki slík tækifæri og hvetur VR þá eindregið til þess.
Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var af Hagstofunni og kynnt í skýrslunni Ísland og fjórða iðnbyltingin sem unnin var á vegum forsætisráðuneytisins 2019, er talið að á næstu 10-15 árum muni 28% starfa á Íslandi verða fyrir verulegum áhrifum af sjálfvirknivæðingu, en að 14% starfa verði fyrir litlum áhrifum. Fram kemur að störf í iðnaði og sölu- og þjónustustarfsemi séu líklegust til að dragast mest saman.
Útfrá þessari greiningu má ætla að miklar breytingar séu í vændum á störfum félagsmanna VR.
NÁM ER ÆVILANGT VIÐFANGSEFNI
Meira en helmingur stjórnenda telur að á næstu fimm árum muni starfsmannafjöldi fyrirtækisins vera óbreyttur eða að starfsmönnum muni fjölga samkvæmt könnun VR. Ljóst er að verkefnin sem félagsmenn VR sinna munu breytast eins og kemur fram í greiningu Hagstofunnar og könnun VR meðal félagsmanna sýnir að um það bil helmingur félagsmanna hefur þegar bætt við sig þekkingu til að mæta tæknibreytingum og stafrænni þróun á vinnumarkaði. Það
gefur til kynna að þessi hópur hafi þegar tamið sér að líta á nám sem viðvarandi verkefni sem tekur ekki endilega enda, heldur sé stundað ævilangt. Í Aðgerðaráætlun um fjórðu iðnbyltinguna benda höfundar einmitt á að slíkt viðhorf gagnvart námi sé „einkenni samfélags þar sem breytingar eru hraðar [og] að námi fólks lýkur aldrei endanlega,
heldur er það ævilangt verkefni.“
Þegar félagsmenn voru spurðir hvert þeir myndu leita til að uppfæra þekkingu sína og undirbúa sig fyrir tæknibreytingar og/eða stafræna þróun í starfi svöruðu 51% að þeir myndu leita til vinnuveitanda.
Ábyrgð fyrirtækja í þessu samhengi er mikil og ljóst er að sum þeirra þurfa stuðning til þess að uppfylla getu sína til að bjóða viðeigandi fræðslu fyrir starfsfólkið sitt. VR tekur í ljósi þessa þátt í verkefni ásamt Samtökum verslunar og þjónustu og Háskólans í Reykjavík um að setja á fót Stafrænt hæfnisetur. Verkefni setursins verður meðal annars að
aðstoða fyrirtækin við að bjóða starfsfólki sínu upp á þá fræðslu sem það hefur þörf fyrir vegna tæknibreytinga og stafrænnar þróunar.
48% félagsmanna segjast myndu sækja netnámskeið eða fyrirlestra á netinu til þess að uppfæra þekkingu sína. Hádegisfyrirlestrar VR eru nú alfarið komnir á rafrænt form og hefur það aukið mjög fjölda þeirra sem nýta sér að hlusta á þá. VR opnaði vefinn www.stafrænhæfni.is
í fyrra þar sem einstaklingar geta metið hvar þeir standa í stafrænni hæfni. Nú hefur verið opnað fyrir skráningar á námskeið sem byggja á hæfniþáttunum sem mæld eru í Stafræna hæfnihjólinu og geta félagsmenn VR sótt þau námskeið á netinu sér að kostnaðarlausu og unnið að því að bæta stafræna hæfni sína. Námskeiðin eru í formi
kennslumyndbanda og þróuð af fræðslusetrinu Starfsmennt, sjá nánar á www. smennt.is
Það er VR mikilvægt að upplýsa félagsmenn sína um það hvar þeir standa gagnvart þeim breytingum sem eru í vændum og hvert þeir geti leitað til þess að gera sig að verðmætari og eftirsóttari starfskröfum í þau verkefni sem vinnumarkaður framtíðarinnar kallar á. Á næstu mánuðum verður vefurinn www.vr.is/starfsþróun opnaður með víðtækum upplýsingum um það hvernig félagsmenn VR geta sjálfir unnið í sinni eigin starfsþróun og haldið áfram með hið ævilanga viðfangsefni sem nám er.
Það er stefna VR að einstaklingar á vinnumarkaði fái aukin tækifæri og hvata til þess að þróa færni sína og læra nýja með sí- og endurmenntun. Svör stjórnenda benda til þess að vilji sé fyrir því að veita starfsfólki slík tækifæri og hvetur VR þá eindregið til þess.
Meirihluti félagsmanna eða 63% virðist ekki hafa miklar áhyggjur af áhrifum tæknibreytinga
á störf sín en svipað hlutfall telur engu að síður mikilvægt að bæta við sig þekkingu í ljósi stafrænnar þróunar á vinnumarkaði.