Skip to main content


Selma Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá VR, skrifar:
Undanfarin misseri hefur verið nokkuð markviss umræða um fjórðu iðnbyltinguna og fólki sífellt ráðlagt að undirbúa sig til að geta tekist á við aukna tækni í samfélaginu. VR vill leggja sitt af mörkum í þeirri umræðu með því að bjóða upp á verkfæri sem er til þess fallið að styðja við bakið á félagsmönnum í örri tækniþróun. Niðurstaðan varð sú að bjóða upp á Stafræna hæfnihjólið, sjálfsmatspróf sem er öllum aðgengilegt þeim að kostnaðarlausu.

AF HVERJU STAFRÆNA HÆFNIHJÓLIÐ?
Árið 2016 útnefndi Evrópuþingið stafræna hæfni sem eitt af átta kjarnahæfnisviðum símenntunar og er efling stafrænnar hæfni eitt af forgangsverkefnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aukin stafræn hæfni er sögð styrkja einstaklinginn og auka öryggi við almenna notkun á stafrænum lausnum. Stafræna hæfni þarf ávallt að skoða með hliðsjón af tæknilegu samhengi nútímans þar sem sjálf skilgreiningin á stafrænni hæfni er síbreytileg.
Stafræna hæfnihjólið er unnið og þróað af danska fyrirtækinu Center for digital dannelse og byggir á skilgreiningu DIGCOMP, sem er rannsóknarverkefni hjá Evrópusambandinu. Stafræna hæfnihjólið hefur verið aðgengilegt á ensku og dönsku og er nú aðgengilegt á íslensku fyrir tilstuðlan VR.

HVERNIG STEND ÉG SAMANBORIÐ VIÐ AÐRA Í MINNI STARFSGREIN?
Meginmarkmið VR með Stafræna hæfnihjólinu er að gefa félagsmönnum kost á að kortleggja eigin stafrænu hæfni með það í huga að veita þeim mögulega sýn inn í þá þætti sem flokkast almennt undir stafræna hæfni. Með þá vitneskju sjá félagsmenn á hvaða sviði þeir standa sig vel og á hvaða sviði þeir mættu bæta sig til þess að standast samanburð miðað við aðra í sömu starfsgrein.

HVAÐ ER STAFRÆN HÆFNI?
Stafræn hæfni snýst fyrst og fremst um að geta beitt viðeigandi þekkingu og færni, en einnig að vera reiðubúin/n að endurskoða viðhorf sín og vera tilbúin/n að prófa nýja tækni. Notkun á stafrænni tækni nær til ýmissa viðfangsefna og er notuð í ýmsum tilgangi bæði í vinnu sem og í einkalífi, t.d. vegna náms, til að sækja um vinnu, versla á netinu, afla heilsufarsupplýsinga, vera með og taka þátt í samfélaginu o.s.frv. Efling stafrænnar hæfni stuðlar fyrst og fremst að því að styrkja mannauð og auka atvinnu – og samkeppnishæfni hvers og eins.

  • Notkunin felst í:
  • Samskiptum og samvinnu
  • Vinnu með upplýsingar
  • Gerð efnis og hvernig því er deilt með öðrum á:
    • skilvirkan hátt
    • hagkvæman hátt
    • öruggan hátt
    • gagnrýninn hátt
    • skapandi hátt
    • sjálfstæðan hátt
    • siðferðislega réttan hátt

HVERNIG VIRKAR STAFRÆNA HÆFNIHJÓLIÐ?
Stafræna hæfnihjólið er sjálfsmatspróf sem tekur einstakling um 12-15 mínútur að þreyta. Þátttakandinn svarar spurningum með því að stjörnumerkja eigin getu á 16 mismunandi hæfnisviðum og svara spurningum sem birtast í línulegu ferli. Spurningarnar eru samtals 63.
Þátttakandinn gefur upp nafn sem birtist eingöngu efst á svarblaði hans og gefur einnig upp netfang til að fá sendan tengil á eigin niðurstöður. Stuðst er við danska gagnagrunninn hjá Center for digital dannelse við úrlausnir og eru niðurstöður þátttakanda vistaðar þar án persónugreinanlegra gagna.
Að sjálfsmatsprófi loknu fær þátttakandi tölvupóst með niðurstöðum sínum sem birtast í svokölluðu geislariti sem sýnir hæfni viðkomandi á 16 mismunandi sviðum stafrænnar hæfni sem skilgreinist í fjóra meginþætti. Meginþættir stafrænnar hæfni skiptast niður í öryggi, upplýsingar, samskipti og framkvæmd. Á miðju geislaritinu birtist heildarprósenta stafrænnar hæfni þátttakandans. Auk niðurstaðna um stafræna hæfni fær þátttakandinn ráðleggingar um á hvaða sviðum hann megi bæta sig og tillögur um hvernig það skal gert.
Það er gaman að segja frá því að í kjölfar Stafræna hæfnihjólsins er í bígerð vinna fræðsluseturs við að þróa lausnir til að aðstoða fólk við að uppfylla þau úrræði sem lögð eru til af hálfu Stafræna hæfnihjólsins. Þá erum við að tala um möguleg námskeið sem byggð eru á niðurstöðunum eða jafnvel stafrænt efni sem einstaklingar geta fylgt eftir til að efla hæfni sína.
Þátttakanda gefst einnig kostur á að sjá eigin niðurstöður í samanburði við aðra sem tekið hafa þátt og eru að lokum staðsettir í píramída út frá heildar stigafjölda sínum.

AF HVERJU Á ÉG AÐ TAKA SJÁLFSMATSPRÓFIÐ Í STAFRÆNNI HÆFNI?
Það er von VR að Stafræna hæfnihjólið verði til þess fallið að félagsmenn hugi að því hver þeirra eigin stafræna hæfni er, burtséð frá menntun og fyrri störfum. Í mörgum tilvikum er stafræn hæfni eflaust góð og nær eðlilegum viðmiðum en lærdómsríkt er þó að sjá hvort þar leynast þættir sem mætti betrumbæta, þó ekki væri nema til aukinnar vitundarvakningar

Hér má nálgast Stafræna hæfnihjólið